Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 26. apríl 2010, kl. 18:39:08 (0)


138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:39]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þakka hólið. En það er algerlega ómótmælanlegt, hæstv. forseti, að svæðaskiptingin mistókst. Það sjáum við á tölunum. Mikil veiði stóð yfir í fáa daga á svæði A. Þar voru að mig minnir einn þriðji af bátunum staðsettur vegna þess að menn vissu að þar yrði veiðin mest. Þess vegna sprakk þetta svæði eftir fáeina veiðidaga.

Á öðrum veiðisvæðum var þessu allt öðruvísi farið. Það byggðist á því að stuðst var við gamla úthlutun á byggðakvótum, svo ég endurtaki það enn og aftur, sem kemur þessu máli nákvæmlega ekki nokkurn skapaðan hlut við. Mér er óskiljanlegt af hverju hæstv. ráðherra miðar við einhverja byggðakvóta. Hann getur miðað við hvað sem er. Þetta hefur ekkert með byggðakvóta að gera. Þess vegna er fráleitt annað en að gefa okkur tækifæri á þessu ári (Forseti hringir.) til að búa til nýja viðmiðun til að styðjast við.