Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 26. apríl 2010, kl. 18:40:33 (0)


138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:40]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þann nýja tón sem er kominn í umræðuna um strandveiðarnar og miða þá við hvernig hvessti í sölum Alþingis um þetta leyti fyrir ári þegar við ræddum þetta mál í fyrsta skipti. Menn átta sig kannski á því í ljósi reynslunnar frá síðasta ári að strandveiðarnar hafa haft ótvíræð samfélagsleg áhrif, bæði hagræn og félagsleg.

Ég kem hingað aðeins til að blanda mér í umræðuna um svæðaskiptinguna. Það er ekki alveg sanngjarnt að fara fram á það núna að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd setji þegar inn í löggjöf niðurneglda útfærslu á svæðaskiptingunni. Sú reynsla sem við fengum af svæðaskiptingunni í fyrra var afar takmörkuð og gaf skakka mynd vegna þess að veiðarnar gátu ekki hafist fyrr en 1. júlí og á því tel ég að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson og hans flokksbræður í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd beri ákveðna ábyrgð. Málið tafðist þannig að svæðaskiptingin gaf ekki góða raun, m.a. vegna þess að fiskurinn var genginn á svæði A og fyrir vikið var þar mesta kappið í veiðunum.

Núna hefur verið séð fyrir þessu að hluta til með því að byrja 1. maí og láta tímabilið ná út ágústmánuð þannig að það er von til að þetta gefi betri raun í ár. Það breytir því ekki að meiri hluti nefndarinnar gerir ráð fyrir því að ráðherra verði falið að fylgjast með þeirri reynslu sem fæst af sumrinu í sumar og bregðast við ágöllum. Þetta vald er falið ráðherranum til að hann geti brugðist við þeirri reynslu sem við fáum í sumar, reynslunni sem við fengum því miður ekki í fyrrasumar.