Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 26. apríl 2010, kl. 19:17:12 (0)


138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[19:17]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Verndun og hagkvæmni í nýtingu sem markmið fór að þessu leyti ekki alveg saman við að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu — og þó. Ef við hefðum haldið áfram á sömu braut og við vorum á og haft þennan fjölda starfandi í greininni, haldið áfram með því að hafa allan þennan fjölda skipa með þeim mikla fjölda sjómanna sem hefði þurft á skipin, haldið í við okkur við að efla tæknina í vinnslum landsins, værum við auðvitað með miklu fleira fólk til að vinna þar. En værum við að skapa einhver meiri verðmæti með því? Skilaði það þá öllum meiri tekjum? Nei, það hefðu allir minna. Það væri minni arðsemi, það væri minni hagkvæmni, það væru lægri laun, það væri stopulli vinna.

Maður getur ekki í þessu farið báðar leiðirnar, það er ekkert í boði. Maður rekur þetta annaðhvort sem félagslegt kerfi, þar sem maður hugsar um að hafa sem flesta í vinnu og hafa sem flesta báta á sjó og borgar þá með þessu, borgar það niður, eða fer hina leiðina þar sem maður leitar mestrar hagkvæmni og sem mestrar arðsemi úr greininni, sem er þjóðarhagur. Þetta er óumdeilanlegt. Þess vegna sagði ég það áðan að stjórnvöld hefðu brugðist í því að standa vörð um að skapa önnur tækifæri úti um land, horfa til annarra tækifæra til þess að reyna að draga úr þeirri þróun í byggðum landsins sem tæknivæðingin í sjávarútvegi hafði óneitanlega í för með sér.

Ég held að það (Forseti hringir.) væri mjög gott að gera úttekt á hagkvæmum þáttum strandveiðimálsins og ég er (Forseti hringir.) ósammála hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur í því. Ég held nefnilega að það verði ekki stjórnvöldum í hag. Ég held að það komi í ljós (Forseti hringir.) við slíka skoðun að þjóðhagslega séð er þetta óhagkvæmt.