Skeldýrarækt

Mánudaginn 26. apríl 2010, kl. 19:56:57 (0)


138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

skeldýrarækt.

522. mál
[19:56]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Varðandi það frumvarp sem hér liggur fyrir hef ég haft þann skilning á orðræðu hæstv. ráðherra að hann væri mikill sveitarfélagamaður og hafi tekið undir sjónarmið þeirra í gegnum tíðina. Því vekja nokkra furðu þau ákvæði sem í frumvarpinu eru og það mikla vald sem ráðherra vill taka til sín sem lýtur að skipulagsmálum. Ég vil inna hann sérstaklega eftir því með hvaða hætti hann hyggst beita þessu valdi sínu, því að þetta gengur í rauninni á skjön við gildandi ákvæði laga sem lúta að skipulagsmálum í landinu og því hlutverki sem sveitarfélögunum er ætlað að inna af hendi í þeim efnum. Mér þykir miður þegar þetta skarast með þeim hætti sem hér liggur fyrir og tel það raunar ótækt.

Sömuleiðis gengur þetta gegn ákvæðum um markmið þess frumvarps sem er í vinnslu hjá umhverfisnefnd sem lýtur að skipulagslögum og sömuleiðis líka að því sem snertir mannvirkjalögin svokölluðu.

Hér er eitt atriði líka sem ég vildi gjarnan heyra örlítið meira um frá hæstv. ráðherra en það er svokölluð heilnæmiskönnun í 8. gr. Það er engin skýring eða skilgreining á því hvaða gagna þarf að afla eða hvað felist í þessu. Eina atriðið sem maður getur áttað sig á í þessum efnum er í greinargerð með frumvarpinu þar sem segir aðeins að hún skuli taka til þess hvort svæði henti til skeldýraræktar. Mér þætti vænt um ef ráðherrann gæti upplýst það hér hvað felst raunverulega í þessu, hvort ekki ætti þá að meta áhrif á aðra starfsemi, sjónmengun o.s.frv., og fleiri þætti sem þarna beri að tiltaka.

Sömuleiðis vildi ég líka heyra hvernig hæstv. ráðherra sér heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga koma að þessum málum.