Skeldýrarækt

Mánudaginn 26. apríl 2010, kl. 20:06:37 (0)


138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

skeldýrarækt.

522. mál
[20:06]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Frú forseti. Tilefni til þess að ég ákvað að koma upp er þetta frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um skelrækt, sem ég fagna að skuli fram komið. Ég held að það sé tímabært og mjög jákvætt að nú sé unnið að því að ná utan um skeldýrarækt í landinu, sem á örugglega eftir að vaxa hér á landi í náinni framtíð mjög ríkulega.

Á nýafstöðnum þjóðfundum í landshlutum sem haldnir voru í vetur og leggja grunn að sóknaráætlun fyrir Ísland, bar skeldýrarækt mjög oft á góma sem sóknarfæri, ekki síst á Vestfjörðum og Austfjörðum vegna þess að það er viðtekin skoðun að þröngir firðir henti best til skeldýraræktar og kræklingaeldis. Reyndar hefur sú ánægjulega þróun orðið að nú eru hafnar tilraunir með skeldýrarækt fyrir utan Voga á Vatnsleysuströnd sem þykja gefa afskaplega góða raun, svo ekki sé meira sagt. Sá sem fékk þar leyfi til tilraunaræktunar telur jafnvel að skeldýr sem hann hóf að rækta fyrr á þessu ári geti orðið markaðsvara í haust. Það er sérstaklega ánægjulegt að svona þróun eigi sér stað á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysi er mest á landinu, og þess má reyndar geta í framhjáhlaupi að sá sem stendur fyrir þessari tilraunastarfsemi í Vogum á Vatnsleysuströnd er iðnaðarmaður sem missti vinnuna í fyrra og ákvað að finna sér ný sóknarfæri og datt niður á þessa góðu hugmynd. Hann sagði mér jafnframt að tveir eða þrír aðrir aðilar séu að fara af stað á Suðurnesjum í næsta nágrenni við hann og fleiri eru að skoða möguleikana. Sami heimildarmaður minn taldi líka að þetta gæti skapað allmörg störf á Suðurnesjum ef vel væri á málum haldið. Við fögnum því að sjálfsögðu að þetta frumvarp skuli fram komið vegna þess að ég tel mjög mikilvægt að búið verði vel um hnútana í uppbyggingu nýrrar atvinnugreinar eins og þessi verður vonandi.

Ég deili áhyggjum hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar um litla aðkomu sveitarfélaga að málinu eins og þetta er lagt upp í frumvarpinu og vil vekja athygli hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á því að í 3. gr. frumvarpsins segir m.a. að framleiðslusvæði geti verið sjávarsvæði, ármynni eða lón þar sem er að finna náttúruleg skeldýr. Með öðrum orðum, ræktunarsvæðið eða framleiðslusvæðið getur verið á landi eða í lóni. Það er því mjög undarlegt að ekki skuli vera gert ráð fyrir aðkomu sveitarfélaga í skipulagi þessarar vinnu. Það getur vel verið rétt að Fiskistofa vinni skipulagsáætlanir fyrir skeldýrarækt og auðvitað þarf yfirsýnin að vera á einum stað en það er alveg jafnljóst að það verður að tryggja mjög ríkulega aðkomu sveitarfélaganna eins og áður segir.

Reyndar er einhver þversögn í frumvarpinu sem gengur ekki alveg upp vegna þess að í II. kafla um stjórnsýsluna segir að ráðherra hafi skipulagsvaldið og Fiskistofa hafi umsjón með skipulagi. Það er mjög nýtt, alla vega fyrir mér, að Fiskistofa hafi skipulagsvald en síðan skal, eins og segir í 7. gr. frumvarpsins, fylgja með tilraunaleyfum yfirlýsing bygginga- og/eða skipulagsfulltrúa sveitarfélags um að mannvirki sem áformað er að nota við skeldýrarækt séu í samræmi við skipulag. Það er því eitthvert ósamræmi í frumvarpinu. Svo segir reyndar í 11. gr. frumvarpsins líka að „mannvirki og búnaður sem nýtt eru í þágu skeldýraræktar skulu vera í samræmi við gildandi skipulag og ákvæði laga og stjórnvaldsreglna sem gilda á hverjum tíma“.

Það er spurning þar af leiðandi hvort ekki sé rétt að tengja saman og draga fram aftur nefndarálit frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd um frumvarp um fiskeldi, sem lagt var fram á 135. löggjafarþingi, þar sem sömu ambögur voru greinilega á frumvarpinu á sínum tíma en þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sagði í áliti sínu um frumvarpið, með leyfi forseta:

„Nefndin ræddi um aðkomu sveitarfélaga að þeim stjórnsýsluákvörðunum sem í frumvarpinu felast og varða m.a. svæðaskiptingu fiskeldis, staðsetningu fiskeldisstarfsemi og útgáfu rekstrarleyfa en á fundum nefndarinnar komu fram athugasemdir um að aðkoma þeirra væri ekki nægilega vel tryggð og að það skipti sveitarfélög og íbúa þeirra miklu máli hvort starfsemi á borð við fiskeldi væri leyfð við strönd eða á fjörðum í sveitarfélögum og því væri nauðsynlegt að tryggja þátttöku þeirra í ákvörðunum um það.“ — Svo segir jafnframt: „Fellst nefndin á þau sjónarmið og leggur til breytingu á frumvarpinu …“

Ég held að þessi frumvörp séu á margan hátt áþekk og því spurning hvort ekki sé sjálfsagt að taka þetta orðalag og fella það inn í frumvarpið með einhverju móti eða að þetta verði a.m.k. veganesti fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd í umræðunni um frumvarpið. Og ég trúi því eftir orð hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra áðan að svo verði og hann muni taka þetta til athugunar. Það er mjög mikilvægt vegna þess að það liggur í augum uppi að það munu verða miklir hagsmunaárekstrar ef að líkum lætur, nú þegar sýn manna opnast á tækifæri undan ströndum landsins. Það munu örugglega verða miklir hagsmunaárekstrar. Við sjáum það nú þegar í Arnarfirði þar sem hafa verið nokkrar deilur um það hvernig nýta beri þann djúpa og góða fjörð. Það skiptir því verulegu máli að sveitarfélögin komi að þeirri umræðu, enda fylgir slíkri starfsemi líka heilmikil starfsemi í landi. Ég veit t.d. að kræklingabændur í Vogum á Vatnsleysuströnd hafa jafnvel uppi hugmyndir, og hafa rætt það í samvinnu við fleiri, að reisa hreinsunarhús eða vinnsluhús í landi að og ætla þannig að nýta sér nálægðina við flugvöllinn, sem auðvitað veitir þeim forskot fram yfir aðra kræklingaræktendur í landinu, og þar af leiðandi mjög greiða og stutta leið á markað þar sem án efa munu fást miklir fjármunir fyrir framleiðslu eins og þessa á komandi árum.