Skeldýrarækt

Mánudaginn 26. apríl 2010, kl. 20:48:38 (0)


138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

skeldýrarækt.

522. mál
[20:48]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að til að styðja við þessa grein þurfi skilgreint þróunarfé sem getur komið inn sem hlutafé eða með öðrum hætti. Greinin þarf sinn þróunarferil og miklar væntingar eru bundnar við hana og við trúum því að hún eigi sér virkilega möguleika en ljóst er að hún þarf að stíga yfir þróunarþröskulda og að tryggja þarf fjármögnun. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að Byggðastofnun sé fyrsti aðilinn sem ætti að koma þar að.

Í þessu sambandi er samt mikilvægt, eins og hv. þingmaður benti líka á, að setja sem bestan heildarlagaramma utan um atvinnugreinina því þá er þægilegra, greiðara og betra að rökstyðja aðkomu fjárfestingaraðila, lánardrottna og annarra sem koma með fjármagn. Því betur sem greinin er skilgreind hvað þá umgjörð varðar, því betra er að koma að henni. Það er liður í þessu starfi að koma með heildstæð lög.

Það var valkostur að breyta lögum um fiskeldi eða koma með sjálfstæðan lagaramma, en það var mat hópsins að réttara væri að koma fram með heildstæð lög og fara í gegnum þá umræðu sem þarf um umgjörð þessarar atvinnugreinar. (Forseti hringir.)