Skeldýrarækt

Mánudaginn 26. apríl 2010, kl. 20:55:05 (0)


138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

skeldýrarækt.

522. mál
[20:55]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessum góða hug hæstv. ráðherra til Byggðastofnunar. Ég hef haft svolítinn beyg af því að í ríkisstjórninni kynnu að vera uppi sjónarmið frá þeim tíma þegar kratarnir beygðu hæstv. ráðherra í umdeildu skötuselsfrumvarpi og komu í veg fyrir að hann gæti ráðstafað fjármunum til byggðamála. En nú hefur hæstv. ráðherra sagt að hugur ríkisstjórnarinnar sé ákaflega jákvæður í garð Byggðastofnunar og kannski er það til marks um að þeir séu farnir að iðrast gjörða sinna í þeirri lagasmíð.

Aðalatriðið er þó það að við erum að reyna að setja heildarlöggjöf um uppbyggingu kræklingaræktarinnar. Ég vil árétta það sem ég sagði áðan að á vissan hátt hefur orðið viðhorfsbreyting varðandi skipulag á grunnsævinu næst fjöruborðinu vegna þess að aðstæður hafa verið að breytast. Nýting á hafsvæðinu er orðin miklu margbrotnari en áður. Fiskveiðar eru orðnar fjölbreyttari, túristaveiðar, fiskeldi, skeldýrarækt, sérstaklega kræklingar, og nýting á hafsbotninum og allt þetta kallar á nýja hugsun, nýja nálgun þegar kemur að skipulagslegum þáttum.

Ég ítreka það og árétta að Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur farið fram á að einn fjörður, Arnarfjörður, verði gerður að eins konar tilraunaverkefni þar sem sveitarfélögin fái heimild til að fara með það vald að nálgast þetta heildstætt. Nú liggur hins vegar fyrir frumvarp þar sem slóðin er fetuð í alveg þveröfuga átt og mér finnast viðtökur ríkisvaldsins við ósk Fjórðungssambands Vestfirðinga ekki lofa góðu. Þess vegna segi ég að við í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þurfum að fara mjög rækilega yfir þann þátt málsins sem snýr að skipulagsmálum og hefur verið gerður að svo miklu umtalsefni og gagnrýndur svo harðlega (Forseti hringir.) af þingmönnum, að mér heyrist úr öllum þeim flokkum, sem tekið hafa til máls.