Umgengni um nytjastofna sjávar

Mánudaginn 26. apríl 2010, kl. 21:02:12 (0)


138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

umgengni um nytjastofna sjávar.

589. mál
[21:02]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, sem er 589. mál þingsins á þskj. 980. Breytingar þessar snúa að því að veita Fiskistofu heimild til að beita dagsektum til að knýja fram skil á svokölluðum vigtar- og ráðstöfunarskýrslum.

Frumvarpið er unnið á grundvelli tillagna Fiskistofu sem hefur vakið athygli ráðuneytisins á mikilvægi þess að unnt sé að knýja á um skil á skýrslum þessum. Fiskistofa safnar og vinnur upplýsingar úr vigtar- og ráðstöfunarskýrslum sem eru skýrslur sem kaupendur afla, fiskmarkaðir og útgerðir vinnsluskipa skila nú til Fiskistofu. Upplýsingar þessar eru nýttar í margvíslegum tilgangi, svo sem við ákvörðun á viðmiðunarverði hjá úrskurðarnefnd sjómanna, í birtingu ársfjórðungslegra hagtalna hjá Hagstofu Íslands, í samanburði við skráningar í aflaskráningarkerfi Fiskistofu til að kanna nákvæmni og réttmæti skráningar afla til aflamarks fiskiskipa, við bakreikningseftirlit Fiskistofu þegar grunur er um að aðili eigi viðskipti með afla sem ekki hafi verið vigtaður og skráður til aflamarks í samræmi við lög og reglur, við ákvörðun gjalds vegna ólögmæts sjávarafla, auk þess sem upplýsingarnar eru notaðar við svörun fyrirspurna varðandi afla, ráðstöfun hans og verðmæti.

Hér er um mikilvæga upplýsingaöflun að ræða en til þess að upplýsingar þessar og úrvinnsla komi að fullu gagni við úrlausn fyrrgreindra verkefna er afar mikilvægt að skýrslunum sé skilað innan tiltekins tíma. Hér er lagt til að Fiskistofa fái heimild til að knýja á um skil umræddra skýrslna en slíka heimild er ekki að finna í lögum í dag.

Ég tel mikilvægt, frú forseti, að mál þetta fái framgang og legg því til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og til 2. umr.