Happdrætti

Mánudaginn 26. apríl 2010, kl. 21:28:01 (0)


138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

happdrætti.

512. mál
[21:28]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 38/2005, um happdrætti. Samkvæmt núgildandi lögum er óheimilt að reka hér á landi happdrætti þar sem spilað er um peninga eða peningaígildi nema samkvæmt sérstakri lagaheimild. Einnig er óheimilt að reka annars konar happdrætti án sérstaks leyfis og er lagaramminn í þeim efnum í happdrættislögum.

Í lögunum er sérstakt refsiákvæði sem ætlað er að girða fyrir að happdrætti sem ekki hafa lagaheimild fyrir starfseminni eða ekki eru starfrækt samkvæmt sérstöku leyfi samkvæmt happdrættislögum auglýsi starfsemi sína. Slík var a.m.k. fyrirætlan löggjafans ef litið er á happdrættislög og tilgang þeirra. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að hér á landi hafa birst slíkar auglýsingar og hafa lögin ekki reynst halda fyrir dómstólum þegar til refsiábyrgðar kemur.

Nánar tiltekið féll dómur í Hæstarétti þann 11. júní 2009 í máli nr. 577/2008 þar sem sakborningur var sýknaður af ákæru um að hafa borið ábyrgð á birtingu auglýsingavefsíðu sem bauð upp á þátttöku í veðmálum, pókerspili og öðru happdrætti sem ekki hafði verið veitt leyfi fyrir samkvæmt lögum um happdrætti. Háttsemin var í ákæru talin varða við b-lið 1. mgr. 11. gr. laganna, sbr. c-lið 26. gr. útvarpslaga, nr. 53/2000. Í dómi héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna, sagði að ekkert væri fram komið um að með umræddum auglýsingum væri verið að kynna happdrættis- eða veðmálastarfsemi sem rekin væri hérlendis. Þannig taldi rétturinn refsiákvæðið einungis ná til hérlendrar starfsemi en sú niðurstaða brýtur í bága við fyrrgreind áform löggjafans að banna allar auglýsingar happdrætta hér á landi sem ekki hafa sérstakt leyfi til starfseminnar, hvort sem leyfið er veitt hér eða annars staðar. Er þessu frumvarpi ætlað að bæta úr þessu og því lögð til breyting á orðalagi refsiákvæðis b-liðar 1. mgr. 11. gr. laganna.

Í ákvæðinu eins og það er í dag er lögð refsing við því að, af ásetningi eða stórfelldu gáleysi, auglýsa, kynna eða miðla hvers konar upplýsingum um happdrætti sem ekki hefur verið veitt leyfi fyrir samkvæmt lögunum eða uppfyllir ekki skilyrði laganna. Í frumvarpi þessu er lagt til að áréttað sé að ákvæðið nái til happdrættis óháð því hvort starfsemi þess er rekin hérlendis eða erlendis. Er þetta lagt til svo girt verði fyrir allan vafa í þessum efnum.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu efnisákvæðum þessa frumvarps. Ég legg til að því verði vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.