Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 27. apríl 2010, kl. 14:56:08 (0)


138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[14:56]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég eiginlega veit ekki hvernig ég á að svara hv. þm. Pétri Blöndal hvað þetta varðar. Ég er nokkuð allsgáður á þingflokksfundum Vinstri grænna og mér vitanlega hefur hann ekki setið þá fundi og ég veit ekki til þess að hann hafi þau gögn undir höndum sem þar hafa verið lögð fram, né að í hans eyru hafi hljómað þær raddir sem þar hafa talað varðandi það mál sem hann nefndi, Icesave-málið, sem hann hafði ekki pólitískan kjark til að afgreiða hér á þingi frekar en samflokksmenn hans sem komu þó þjóðinni í þann vanda sem Icesave-málið er. (Gripið fram í.) Það ættu fyrrverandi stjórnarþingmenn að taka til sín, sérstaklega úr Sjálfstæðisflokknum. Síðast í morgun kom hér hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins og talaði um þann vanda sem ríkisstjórnin hefði komið fólkinu í landinu í og hefði ekki burði til að leysa.

Virðulegi forseti. Þeir sem tala svona eru veruleikafirrtir og vita ekki í hvaða heimi þeir lifa, þeir gera sér ekki grein fyrir veruleikanum eins og hann blasir við þeim. Þeir lifa allt öðru lífi en aðrir í landinu. Það er ekki núverandi ríkisstjórn sem kom fólkinu í þann vanda sem það er í. Það var fyrst og fremst ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins. Þingmenn þess flokks standa í ræðupúlti og afsala sér allri ábyrgð af eigin gjörðum og þykjast að auki að vera þess umkomnir að geta túlkað það sem fer fram á þingflokksfundum annarra flokka.