Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 27. apríl 2010, kl. 14:58:02 (0)


138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[14:58]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar umræðu sem var hér áðan vil ég minna hv. þingmenn á að nú er samkomulag á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um Icesave-málið og við eigum að halda því þar. Ég verð að viðurkenna eftir að hafa hlustað á þessi orðaskipti að við tökum ekki mikið mark á því sem stendur í rannsóknarskýrslunni en þar segir að við ættum að færa umræðuna hér á Alþingi upp á eitthvert annað plan en oft áður. Ég held að við eigum öll að einblína á það og horfa til okkar sjálfra til að reyna að komast aðeins áfram í þeirri vinnu. Að lokum vil ég segja að Icesave-málið er í þeim farvegi að sátt er á milli stjórnar og stjórnarandstöðu og við skulum reyna að halda því þar.

Þá ætla ég að snúa mér að því máli sem er til umræðu, þ.e. frumvarpi til breytinga á sveitarstjórnarlögum, en tilgangur frumvarpsins er sá að styrkja eftirlitsnefnd sveitarfélaga. Um þetta mál ríkir mikil samstaða í samgöngunefnd. Ég stend að meirihlutaáliti samgöngunefndar, við sem vorum viðstödd þegar málið var tekið út stöndum öll heilshugar að því. Ég verð að segja af þessu tilefni að það var til mikillar fyrirmyndar hvernig hæstv. samgönguráðherra og samgönguráðuneytið unnu þetta mál í samvinnu við sveitarfélögin í landinu, því enginn ágreiningur er á milli sveitarfélaganna og ráðuneytisins um það hvernig standa skuli að því sem hér er gert. Það tel ég til fyrirmyndar og eftirbreytni fyrir önnur ráðuneyti í mörgum málum.

Í stuttu máli færir þetta frumvarp eftirlitsnefnd sveitarfélaganna betri upplýsingar um stöðu sveitarfélaganna í landinu. Hingað til hefur eftirlitsnefndin unnið með gamlar upplýsingar og þar af leiðandi oft og tíðum ekki haft tækifæri til þess að grípa inn í og reyna að leiðbeina sveitarfélögunum ef í óefni stefnir. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir ársfjórðungslegum skilum til eftirlitsnefndarinnar, sem gerir að sjálfsögðu starf nefndarinnar mikið markvissara og árangursríkara í framtíðinni.

Í sambandi við þetta vil ég nefna að það er líka mikilvægt að fara lengra og breyta samskiptum ríkis og sveitarfélaga og ég veit að sú vinna er í gangi, að réttir tekjustofnar fylgi verkefnum þegar þau eru flutt frá ríki til sveitarfélaga og að þær vinnureglur verði settar að þegar búið er að flytja verkefnin verði kostnaður við þau reiknaður til að fá niðurstöðu um hve mikið af tekjustofnum þurfa að fylgja þeim yfir. Ég tel, virðulegi forseti, að hræðslan við að þeir tekjustofnar sem þurfa að fylgja verkefnunum geri það ekki sé ein ástæða þess að sveitarfélög hafa ekki verið tilbúin til að taka við fleiri verkefnum frá ríkinu en raun ber vitni.

Ég vonast til þess að sú vinna sem fram undan er verði í samræmi við þá vinnu sem við erum hér með, að menn komist að samkomulagi.

Ég vil líka minna á það, virðulegi forseti, og er óþreytandi við það, að á síðasta ári eða á síðustu mánuðum hefur ríkið fært til sín 2,5 milljarða af tekjum sveitarfélaganna, annars vegar í formi tryggingagjalds og hins vegar í formi lagafrumvarps sem var flutt af hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra í haust. Því verður að breyta. Ég ætla að minna á það að skriflegt samkomulag er á milli stjórnvalda og sveitarfélaga um að reikna kostnað við þau lagafrumvörp sem eru lögð fram á Alþingi, til að menn geti gert sér grein fyrir því hvaða áhrif viðkomandi frumvörp hafa á tekjustofna ríkis og sveitarfélaga.

Það er mjög mikilvægt að því samkomulagi verði fylgt eftir. Ég hef spurt sjálfan mig að því hvort ekki verði nánast að setja þetta í lög, því þó að skrifað samkomulag sé á milli ríkis og sveitarfélaga þá er ekki farið eftir því.

Ég vil benda á það, virðulegi forseti, að í þessu frumvarpi er líka ætlast til þess að ríkið og eftirlitsnefndin nái utan um heildarskuldbindingar sveitarfélaganna, skuldbindandi samninga og annað sem sveitarfélögin hafa gert, þannig að við höfum réttu myndina af stöðu sveitarfélaganna. Það er mjög mikilvægt að það sé gert.

Þá verð ég að benda á það, virðulegi forseti, að á Alþingi Íslendinga er verið að setja lög sem skuldbinda ríkissjóð fram í tímann, hvort sem þau eru um tónlistarhús, hugsanlegar vegaframkvæmdir eða byggingu háskólasjúkrahúss, nýs Landspítala. Ríkisvaldið er í raun og veru að feta inn á þessa braut líka. Ég tel mjög mikilvægt að ríkið setji inn í fjárlög sín sama eftirlit og sömu skilyrði gagnvart sjálfu sér, til að ekki sé verið að setja einhverjar reglur um hvernig sveitarfélögin eigi að vinna en ríkið fari síðan sjálft í öfuga átt.

Að endingu, virðulegur forseti, þá fagna ég þessu frumvarpi og tel það til mikilla úrbóta og mun að sjálfsögðu samþykkja það hér á eftir.