Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 27. apríl 2010, kl. 15:04:45 (0)


138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[15:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það komst ekki til tals í nefndinni, svo ég svari hv. þm. Pétri Blöndal beint, að banna sveitarfélögunum að taka lán fyrir framkvæmdum. Ég er persónulega þeirrar skoðunar að ekki þurfi að gera það frekar en með ríkið, ef menn hafa það að markmiði að sjá til lands. Að gefnu tilefni nefni ég að það kom hins vegar til umræðu í nefndinni, var rætt lauslega og verður rætt líka áfram í áframhaldandi vinnu á milli sveitarfélaganna og ríkisvaldsins í framtíðinni, hvort menn þurfi að skoða að sveitarfélögin taki hugsanlega ekki erlend lán. Það tel ég mjög koma til greina. Sveitarfélögin eru með tekjur í íslenskri mynt, íslenskum krónum eins og við vitum, og það kemur mjög hart niður á þeim sveitarfélögum sem eru ekki með t.d. útflutningsgreinarnar mjög sterkar sem skiluðu þá meiri tekjum þegar krónan féll eins og við þekkjum núna. Því tel ég að menn þurfi að skoða það mjög vandlega.

Það er líka annað sem gerðist þar, og ég þekki það sjálfur sem sveitarstjórnarmaður, að mörg sveitarfélög tóku erlend lán á þeim tíma sem krónan var að styrkjast. Þá sýndu þau sveitarfélög mjög góða afkomu vegna þess að krónan hafði styrkst gagnvart erlendum gjaldmiðli sem þýddi að það var betri rekstrarafkoma hjá sveitarfélögunum. Það var mjög bagalegt að mínu viti fyrir þau sveitarfélög sem tóku ekki erlend lán. Í því sveitarfélagi sem ég sat í bæjarstjórn fyrir og var í forsvari fyrir tókum við engin erlend lán, enda var það sveitarfélag með engin erlend lán þegar hrunið varð. Við okkur var hins vegar sagt: Þið sýnið mjög slaka rekstrarafkomu, ef þið hefðuð tekið erlend lán væruð þið með miklu betri rekstrarafkomu en núna sést í bókum sveitarfélagsins.

Ég tel þetta nokkuð sem menn verða að ræða mun frekar og nánar í samgöngunefnd og að sjálfsögðu líka á sviði sveitarstjórnarmála.