Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 27. apríl 2010, kl. 15:06:51 (0)


138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[15:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar upplýsingar um starfið í nefndinni. En skuldir allra ríkja í heiminum eru að meðaltali 0 og skuldir allra einstaklinga í grófum dráttum eru líka að meðaltali 0, þ.e. þeir eiga jafnmikið og þeir skulda. Allt sem er lánað út hefur einhver annar sparað í einhverju formi. Ég sé ekki af hverju Íslendingar ættu alltaf að vera skuldamegin í lífinu. Af hverju fara þeir ekki í það eins og sumar aðrar þjóðir að eiga fyrir öllum skuldum? Ég vil að menn taki þá stefnu að eiga fyrir skuldum nema kannski íbúðarhúsnæði sínu, en að kaupa t.d. ekki bíl nema eiga fyrir honum, geti staðgreitt hann. Þannig hefur þetta víða verið. Öll okkar vandræði með gjaldmiðilinn og hvað sem er eru vegna þess að við erum svo skuldamegin í lífinu. Við erum ekki sjálfstæð.

Íslendingar ættu að taka þessa stefnu og hluti af því er að sveitarfélögin eigi fyrir þeim útgjöldum sem þau fara í, annars hafa þau bara ekki efni á því. Hins vegar mætti hugsanlega leyfa þeim að hækka útsvarið tímabundið ef þau ætla í stórar framkvæmdir, en þá vita menn af því og geta safnað sér fyrir leikskóla eða einhverjum framkvæmdum sem sveitarfélagið ætlar að fara í.

Ég held að Íslendingar þurfi að snúa við blaðinu. Í 50 eða 60 ár hafa Íslendingar verið skuldamegin í lífinu og borgað heljarinnar vexti til annarra þjóða sem hafa sparað og lánað okkur peninga. Við eigum að snúa við blaðinu og fara að eiga fyrir því sem við eyðum í.