Umferðarlög

Fimmtudaginn 06. maí 2010, kl. 14:03:34 (0)


138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

umferðarlög.

553. mál
[14:03]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um það atriði sem hv. þingmaður ræðir er þetta eitt af því sem skiptar skoðanir eru um, hvernig gert er. Ef ég man rétt var það í mars 2007 sem samþykkt var frumvarp og gert að lögum á Alþingi um hlífðarfatnað hjá bifhjólafólki. Það frumvarp var samþykkt af öllum þeim þingmönnum sem þá voru í þingsal. Aðeins einn greiddi ekki atkvæði og 7 þingmenn voru fjarverandi. Síðan hef ég fylgst með skrifum og öðru, sem orðið hafa um þetta mál, en aðalatriði er að ég held — og það komu fram í því bréfi sem kom til hv. samgöngunefndar 2007, frá einum af forsvarsmönnum Bifhjólasamtaka Íslands, ef ég man rétt, meðmæli með því að hlífðarfatnaður verði settur í lög og það var gert sem sagt og var samþykkt eins og ég gat um áðan. Síðan er það útfærsluatriði hvað telst lögbundinn búnaður, hvað telst fullkominn búnaður og hvað ekki. Það getum við endalaust rætt um en ég hygg að þetta verði dálítið til umræðu í nefndinni, í hv. samgöngunefnd, þegar frumvarpið verður tekið til skoðunar.