Umferðarlög

Fimmtudaginn 06. maí 2010, kl. 14:07:19 (0)


138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

umferðarlög.

553. mál
[14:07]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir yfirferð sína um þennan mikla lagabálk. Við eigum eftir að ræða hann mjög mikið í þinginu og álitaefnin eru mörg. Það er hins vegar eitt mál sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra út í, og inna hann eftir afstöðu hans, og það er hver afstaða ráðherrans sé varðandi svokölluð leyfi við að menn taki hægri beygju á rauðu ljósi. Það var gert í Bandaríkjunum upp úr 1973, þegar olíukreppan mikla skall á þar, að menn heimiluðu þetta. Þetta hefur oft komið til tals á Íslandi og hefur verið sýnt fram á að fjármunir sparast við að leyfa þetta. Þetta þarf að gera með miklum fyrirvara, enda mundi það fela það í sér að það þyrfti að stöðva á rauðu ljósi og ef engin umferð er væri heimilt að taka hægri beygju. Mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra út í afstöðu hans til þessa tiltekna máls og síðan hvort þetta mál hafi eitthvað borið á góma í vinnu nefndarinnar.