Dómstólar

Föstudaginn 07. maí 2010, kl. 14:44:20 (0)


138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

dómstólar.

390. mál
[14:44]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd standa ekki að þessu nefndaráliti og er það skoðun okkar sjálfstæðismanna að ekki sé nógu langt gengið í frumvarpinu í því að tryggja aðkomu Alþingis, komi til þess að ráðherra vilji skipa annan í embætti dómara en dómnefnd leggur til. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir því að einfaldur meiri hluti Alþingis geti breytt niðurstöðu dómnefndar ef dómsmálaráðherra lítur svo á að á ástæða sé til að skipa annan en dómnefnd hefur komist að niðurstöðu um.

Það er skoðun mín að við slíkar aðstæður væri eðlilegt að 2/3 alþingismanna þyrfti til þess að snúa slíkri ákvörðun dómnefndar við og af þeirri ástæðu getum við ekki stutt það frumvarp og þær breytingar sem meiri hluti allsherjarnefndar hefur gert á þessu máli. Enn fremur er það skoðun mín að vegna áforma um að breyta þurfi ákvæðum stjórnarskrár á ákveðinn hátt og þeirrar umræðu sem verið hefur m.a. í allsherjarnefnd um þau ákvæði stjórnarskrár sem taka þyrfti til endurskoðunar sé eðlilegt við slíkar aðstæður að kveðið sé á um það í stjórnarskrá hvernig fara skuli með skipun dómara.

Þetta hefur nokkuð verið rætt í allsherjarnefnd við meðferð þessa máls. Ég hygg að það hefði verið skynsamlegt við afgreiðslu þess að nýta þingviljann ef til þeirra óvenjulegu aðstæðna kæmi að dómsmálaráðherra vildi ekki skipa dómara á grundvelli mats dómnefndar, að Alþingi kæmi að því máli. Þá þyrfti 2/3 alþingismanna til að breyta ákvörðun dómnefndar.

Síðan er önnur umræða sem snýr kannski ekki beint að því hversu óheppilegt eða heppilegt það hefur verið að dómsmálaráðherra skipi t.d. héraðsdómara. Mín skoðun er reyndar sú að það hafi verið hluti af embættisskyldum dómsmálaráðherra og að hann hafi þá borið á því pólitíska ábyrgð hverja hann skipar. Í ljósi þessarar umræðu og þess í hvaða farveg þetta mál er komið er ástæðulaust að staldra mikið meira við það. Aðalatriðið er að ef það er skoðun meiri hlutans að ástæða sé til þess að koma skipun dómara úr embættisfærslu dómsmálaráðherra þarf að mínu viti mikið að koma til til þess að af þeirri braut sé snúið. Þess vegna finnst mér og hefði þótt eðlilegt að sú breyting hefði verið gerð á þessu frumvarpi að 2/3 alþingismanna kæmu að því að breyta skipun eða niðurstöðu dómnefndar.