Sameining ráðuneyta

Mánudaginn 10. maí 2010, kl. 15:09:03 (0)


138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

sameining ráðuneyta.

[15:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson benti á var haldinn allmerkilegur ríkisstjórnarfundur í skyndi í gærkvöldi, á sunnudagskvöldi, m.a. til að ræða hugmyndir sem Samfylkingin hefur svo sem verið spennt fyrir frá því fyrir kosningar, þ.e. að breyta ráðuneytum og gera út af við landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytin. (Utanrrh.: Síðustu 12 árin.) Síðustu 12 árin, segir hæstv. utanríkisráðherra. Það kann vel að vera. En þetta var rætt fyrir kosningar og kom þá í ljós að ætlunin var ekki að spara svo mikið með þessu vegna þess að það átti ekki að fækka starfsmönnum með sameiningu ráðuneyta. Hugmyndin virðist sem sagt vera sú að búa bara til nýtt og stórt bákn úr ráðuneytunum sem fyrir eru, sem skýtur svolítið skökku við. Ég hefði haldið að við þyrftum á því að halda að efla sérfræðiþekkingu og sérhæfingu, sérstaklega ef fer svo að Ísland fari í viðræður við Evrópusambandið á næstu árum. Þetta er mjög undarleg uppákoma og væri mjög fróðlegt að heyra frá hæstv. fjármálaráðherra hverju þetta sætir, hvers vegna verið er að fara í þetta núna. Þau rök að einhverjar tilteknar stofnanir hafi verið of veikar eða of litlar fyrir bankahrun virðast ekki halda í þessu eins og það eitt að búa til nógu stórar stofnanir dugi. Við förum ekki að sameina Fjármálaeftirlitið og Matvælaeftirlitið til að búa til öflugri eftirlitsstofnun.

Á sama hátt er fráleitt að ætla að sameina landbúnaðarráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti og iðnaðarráðuneyti í eitt risastórt bákn og gera ráð fyrir að það sé þá betur í stakk búið til að fást við sérhæfð verkefni. Nú væri gott að fá skýr svör frá hæstv. fjármálaráðherra vegna þess að það er ákaflega mikilvægt að þessi ríkisstjórn fari loksins að vinna að því að eyða óvissu í stað þess að auka á hana. Getur hæstv. fjármálaráðherra staðfest að stofnað verði nýtt ráðuneyti úr sameinuðum ráðuneytum iðnaðar, sjávarútvegs og landbúnaðar á þessu ári?