Sameining ráðuneyta

Mánudaginn 10. maí 2010, kl. 15:11:09 (0)


138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

sameining ráðuneyta.

[15:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er áfram klappaður sami steinninn í þessum efnum. Það var ágætur vinnufundur í gær í ríkisstjórninni, sem var löngu ákveðinn, um ríkisfjármálin og undirbúning fjárlagagerðar sem og um breytingar í stjórnsýslunni og Stjórnarráðinu. Þar hafa verið að koma fram skýrslur með ábendingum, eins og ég vék að áður.

Það sem menn hafa rætt og lesa má úr stjórnarsáttmálanum er að áform eru um að fækka ráðuneytum úr 12 í níu og að þar yrði til atvinnuvegaráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, velferðarráðuneyti og innanríkisráðuneyti. Ef við skoðum aðeins þessi ráðuneyti yrðu þarna sex ráðherrar, sex aðstoðarmenn ráðherra, sex bílstjórar, sex ráðuneytisstjórar og yfir 40 skrifstofustjóra og má ætla að bara út úr sameiningunni kæmi að það yrðu þrír ráðherrar í staðinn fyrir sex, þrír aðstoðarmenn í staðinn fyrir sex, þrír bílstjórar í staðinn fyrir sex, þrír ráðuneytisstjórar í staðinn fyrir sex og um það bil 20 skrifstofustjórar í staðinn fyrir 40. Eitt af því sem gerðist á undanförnum árum undir verndarvæng Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins var að menn hlóðu inn skrifstofustjóratitlum jafnvel í mjög litlar einingar í ráðuneytinu (Gripið fram í: Án auglýsinga?) þar sem menn eru jafnvel skrifstofustjórar yfir sjálfum sér og einum manni í viðbót. Það er enginn vafi á því að ef íhaldssemin ber menn ekki algerlega ofurliði er full þörf á því að stokka upp og endurskipuleggja líka þarna. Ef við ættum að fara að skera niður í rekstri velferðarstofnana með tilfinnanlegum sársauka fyrir alla þá sem þar eiga undir, halda menn þá að vorkunnsemin verði fyrst og fremst með því að það megi ekki fækka ráðherrum eða að það megi ekki fækka ráðuneytisstjórum eða aðstoðarmönnum ráðherra? Ég bið hv. þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sem koma hér upp aðeins að hugleiða hvar þeir eru á vegi staddir. Ég veit að vísu að Sjálfstæðisflokkurinn er íhaldssamur en að hann væri svona hrottalega afturhaldssamur og Framsóknarflokkurinn gangi í lið með honum hafði ég ekki áttað mig á. Eða er það svo að stjórnarandstaðan er algerlega á móti því að farið sé málefnalega og yfirvegað í gegnum þessi mál og skoðað hvernig (Forseti hringir.) við getum betrumbætt og styrkt stjórnsýslu okkar og starfrækt hana með sem minnstum tilkostnaði á erfiðum tímum í ríkisbúskap okkar?