Launakjör seðlabankastjóra

Mánudaginn 10. maí 2010, kl. 15:15:36 (0)


138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

launakjör seðlabankastjóra.

[15:15]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Síðan skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var lögð fram á Alþingi hefur mönnum verið tíðrætt um ný vinnubrögð og gagnsæi og að það sé nauðsynlegt að efla þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Við höfum séð að á síðustu dögum hefur nefnd um bætta stjórnsýsluhætti verið að kynna alls kyns tillögur um það sem betur mætti fara bæði innan þings sem utan.

Á sama tíma þurfum við alþingismenn að búa við það hér á þingi að geta ekki fengið svör við einföldum spurningum sem við beinum að hæstv. ráðherrum. Ég hef núna í tvígang á Alþingi óskað eftir því að fá upplýsingar um það hver það var sem lofaði seðlabankastjóra 400 þús. kr. launahækkun, en tillaga um það var lögð fram í bankaráði Seðlabankans. Ég hef ekki fengið svör við þessum spurningum og málið er orðið að býsna miklu vandræðamáli fyrir ríkisstjórnina. Hæstv. forsætisráðherra lýsti því hér yfir að hún vissi ekkert um málið og hefði rætt við starfsmenn í forsætisráðuneytinu sem kæmu algjörlega af fjöllum hvað málið varðar. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir varpaði allri ábyrgð yfir á formann bankaráðsins og sagði hér í ræðustól Alþingis að hún þyrfti að skýra mál sitt.

Ragnar Árnason, sem á sæti í bankaráðinu, lýsti því hins vegar að tillagan hefði verið lögð fram að höfðu samráði við hæstv. forsætisráðherra eða forsætisráðuneytið, sem er í algjörri andstöðu við það sem Lára V. Júlíusdóttir segir í Fréttablaðinu. Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra er ekki fæddur í gær og það blasir við mér eins og væntanlega honum hvað er satt í þessu og hvað ekki. Ég vil fá að heyra það frá hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) hvort hann er reiðubúinn til þess að styðja þessi vinnubrögð, (Forseti hringir.) bera á þeim ábyrgð, og hvort tillaga um launahækkun seðlabankastjóra (Forseti hringir.) sem borin var upp í bankaráðinu hafi verið borin undir hann áður en það var gert.