Fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna

Mánudaginn 10. maí 2010, kl. 15:40:55 (0)


138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[15:40]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég vil fá að taka undir orð hv. þm. Ragnheiðar E. Árnadóttur um að það eru ýmsar aðrar leiðir til að koma á framfæri fyrirspurnum, það er hægt að hafa þær munnlegar og það er hægt að hafa þær skriflegar. Ég vil líka benda á eitt sem getur verið ágæt leið til að fá allar upplýsingar sem hér var verið að spyrja eftir, að tala hreinlega við nefndarmenn sem eru í þeirri nefnd sem varðar viðkomandi málaflokk, eins og t.d. menntamálanefnd sem ég sit í. Við höfum einmitt verið að ræða um nákvæmlega þetta málefni innan menntamálanefndar og óskuðum eftir því að fulltrúar viðskipta- og hagfræðideilda háskólanna kæmu á okkar fund og færu í gegnum hvernig þeir hefðu breytt námskrám sínum í framhaldi af hruninu og hvort t.d. námsefni eða kennsluefni í siðfræði og því sem hv. þingmaður nefndi hefði að einhverju leyti aukist.

Ég vil líka benda á að það gæti verið gott að ræða við þingmenn um nákvæmlega þessa þætti og jafnvel að við gætum þá oftar (Forseti hringir.) fengið ráðherra á fund nefndanna til að ræða málefni sem eiga skilið mun meiri tíma en (Forseti hringir.) þær fjórar mínútur sem þingmönnum eru ætlaðar.