Fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna

Mánudaginn 10. maí 2010, kl. 15:45:22 (0)


138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[15:45]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni sem benti réttilega á að við fáum ekki svör við fyrirspurnum í fyrirspurnatímum sem eru í hálftíma tvisvar í viku. Við það verður ekki unað. Við verðum að gera bragarbót á þessu. Ég vek athygli á því að það er ekki nóg að lengja tímann og láta fleiri komast að, það verður líka að fá svör (VigH: Rétt.) því að það er alveg sama hve mikill tíminn er, ef hæstv. ráðherra svarar ekki er til lítils að standa í þessu.

Virðulegi forseti. Nú er rúmlega vika síðan hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson byrjaði að spyrjast fyrir um það hver hefði lofað seðlabankastjóra 400.000 kr. kauphækkun. Ég held að hv. þingmaður sé búinn að spyrja alla ráðherra sem honum dettur í hug og hann fær aldrei svör. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra vill fá þessa spurningu, ég heyri það á honum, þannig að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er með verkefni (Forseti hringir.) fyrir næstu viku.