Fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna

Mánudaginn 10. maí 2010, kl. 15:46:48 (0)


138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

fyrirkomulag óundirbúinna fyrirspurna.

[15:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég get við heiður minn sem gamals skáta sagt að ég hef engum manni lofað launahækkun, en ég væri til í að hækka launin við hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson því að hann er svo skemmtilegur hér. [Hlátur í þingsal.] En ég kem hér upp, frú forseti, vegna þess að hér hafa spunnist umræður um það með hvaða hætti ráðherra eigi að sitja fyrir svörum og hver eigi að vera réttur þingmanna til að spyrja þá. Ég er þeirrar skoðunar að það skipti mjög miklu máli að hv. þingmenn hafi alla möguleika til að spyrja hæstv. ráðherra út úr. Ég kem hér þess vegna aðallega til að ítreka það sem ég hef áður sagt við umræður af þessu tagi, ég tel að það væri mjög vel til fundið að fulltrúar framkvæmdarvaldsins sætu fyrir svörum á hverjum degi, að hér væri hálftími í upphafi hvers þingdags þar sem allir ráðherrar sem gætu komið því við sætu fyrir svörum. Ef menn eru úti á landi vegna anna eða einhverra slíkra hluta er það í lagi, en þeir sem gætu komið því við eiga að vera hér og hv. þingmenn (Forseti hringir.) eiga að fá að spyrja þá spjörunum úr á hverjum einasta degi.