Skattar og fjárlagagerð 2011

Mánudaginn 10. maí 2010, kl. 16:12:15 (0)


138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

skattar og fjárlagagerð 2011.

[16:12]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Nú rétt fyrir áramótin, áður en breytingar á skattkerfinu og þær skattahækkanir gengu í garð, spurðum við framsóknarmenn ítrekað í þingsal hvort búið væri að gera úttekt á því hvort almenningur gæti staðið undir þessum auknu álögum í ljósi þess að skuldir meginþorra almennings hafa stökkbreyst og að í framhaldinu ætti að hækka skatta verulega.

Nú hafa tölur frá Seðlabankanum leitt í ljós að eitt af hverjum fjórum heimilum í landinu nær í dag ekki endum saman. Í útreikningum sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa gert með Marinó G. Njálsson í broddi fylkingar þar sem gert er ráð fyrir eðlilegri neyslu hjá venjulegu fólki má færa rök fyrir því að annað hvert heimili í landinu nái í dag ekki endum saman. Við þurfum að hugsa það verulega hvort við höfum gengið of langt í að hækka skatta á heimilin í landinu, ekki bara tekjuskattinn heldur hafa m.a. skattar á eldsneyti hækkað gríðarlega og hækkanir á aðrar neysluvörur heimilanna. Þessar hækkanir hafa leitt til þess að stökkbreytt lán heimilanna hafa hækkað enn frekar þannig að ég held að hlutverk okkar allra sem hér erum sé að leggjast yfir þetta verkefni. Höfum við ekki gengið fullgreitt fram í skattahækkunum á heimilin sem mörg hver eiga í miklum erfiðleikum í dag? Ég hvet til samstöðu okkar hér í því að fara fordómalaust yfir það hver staða íslenskra heimila er í dag.

Ef við horfum á þessar hækkanir, m.a. á eldsneyti, hafa þær leitt af sér að eftirspurn minnkar, sem og framleiðni og framleiðsla í samfélaginu. Þess vegna minnka skattar ríkissjóðs, störfum fækkar, gjaldþrotum fjölgar og þetta sýnir allt að á endanum bitnar þetta á ríkissjóði og sameiginlegum tekjum okkar allra. (Forseti hringir.) Ég held að við þurfum að fara fordómalaust yfir þessi mál. Ég held að menn hafi gengið of langt í skattahækkunum almennt séð (Forseti hringir.) og þess vegna þurfum við að taka þessi mál til ítarlegrar skoðunar á þingi.