Skattar og fjárlagagerð 2011

Mánudaginn 10. maí 2010, kl. 16:18:58 (0)


138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

skattar og fjárlagagerð 2011.

[16:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vona að hv. þingmenn hafi glaðst yfir því sem ég tel mig geta upplýst, að í öllum aðalatriðum erum við á áætlun hvað varðar markmið okkar í ríkisfjármálum. Þar skiptir að mínu mati ekki síður miklu að útgjaldamarkmið, þ.e. miklar aðgerðir til að ná niður kostnaði og spara, eru að nást. Flestar stofnanir og ríkisreksturinn í heild eru á áætlun og jafnvel gott betur. Það er mikið gleðiefni því að það er stórt trúverðugleikaatriði að þannig haldi það áfram.

Það er sömuleiðis ánægjulegt að við erum bjartsýnni á tekjuforsendurnar núna eftir tölur fyrstu fjögurra mánaðanna en við vorum kannski í byrjun. Það er misskilningur ef menn halda það, hvort sem það er hv. formaður Framsóknarflokksins eða aðrir, að þar sé einhver meiri háttar brestur á ferðinni. Það er sem betur fer ekki svo. Í aðalatriðum er tekjuáætlunin líka eins og við var búist.

Ríkisstjórnin hefur gripið til fjölmargra ívilnandi aðgerða, t.d. gagnvart vinnumarkaði. Það er samtals búið að safna kröftum saman í um 1.300 sumarstörf. Það er verið að leggja 500 milljónir kr. í viðbót í viðhald á vegum ríkisins, samtals verður ríkið með viðhaldsframkvæmdir á árinu fyrir 3,2 milljarða kr. sem er meira en í venjulegu ári. Það er verið að setja stóra fjármuni í markaðsátak í ferðaþjónustu, 100% endurgreiðsla virðisaukaskatts að viðbættum skattaívilnunum sem hér eru til meðferðar á að örva þá starfsemi o.s.frv. Lægri vextir, lægri verðbólga og eðlileg tengsl við alþjóðlega fjármálamarkaði eru það sem við þurfum núna til að koma hlutunum betur í gang.

Vissulega bíður okkar erfitt verkefni, ég dreg enga dul á það, en þegar hv. þingmenn tala hér gegn tekjuöflun hlýtur þeim að vera ljóst að hinn kosturinn er fyrst og fremst enn þá meiri og sársaukafyllri niðurskurður.

Svarið stendur sem hér var gefið, við gerum ekki ráð fyrir umtalsverðum tekjuskattsbreytingum í ár. Nefndin sem er að störfum á að horfa langt inn í framtíðina og skoða skattkerfi okkar og hvernig við viljum að það þróist. Breiður samráðshópur aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa þingflokka verður kvaddur til samstarfs í þeim efnum.

Varðandi spurningu hv. þm. Óla Björns Kárasonar um það hve mikill halli (Forseti hringir.) á ríkissjóði sé ásættanlegur er svarið að hann þarf að fara niður úr þeim 5,5% eða svo af landsframleiðslu sem hann stefnir í í ár í 2,4-2,5% hið mesta, þ.e. 35–40 milljarða kr. í heildarhalla, (Forseti hringir.) að hámarki.