Fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda

Mánudaginn 10. maí 2010, kl. 17:10:05 (0)


138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[17:10]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Hér er lagt fram frumvarp formanna allra flokka á Alþingi utan Hreyfingarinnar. Þetta er frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

Frumvarpið eins og það liggur fyrir er afrakstur starfa nefndar sem forsætisráðherra skipaði í maí 2009 til að endurskoða umrædd lög. Þingmenn Hreyfingarinnar styðja ekki frumvarpið þar sem framlög fyrirtækja eru áfram heimil og einstaklingar geta áfram styrkt stjórnmálasamtök og stjórnmálamenn í skjóli nafnleyndar. Ekki er dregið úr fjárþörf stjórnmálasamtaka, jafnræðissjónarmiða við úthlutun opinbers fjár er ekki gætt og botnlaus sjálftaka úr almannasjóðum heldur áfram.

Áttunda bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis ber heitið Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008. Þar má finna eftirfarandi málsgrein, með leyfi forseta:

„Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög, bæði til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna.“

Enn fremur segir í niðurlagi kaflans þar sem ályktanir eru dregnar og komið inn á þá lærdóma sem draga þarf af fortíðinni, með leyfi forseta:

„Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins.“

Þingmenn Hreyfingarinnar lýsa yfir fullum stuðningi við niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis í þeim efnum og skora á þingheim allan að gera slíkt hið sama. Framlög lögaðila ættu að vera bönnuð með öllu enda er hér um hreina og klára fjárhagslega hagsmunagæslu að ræða. Lögaðili getur aldrei haft hugmyndafræðilegan áhuga á framgangi mála heldur einungis fjárhagslega hagsmuni, þ.e. gróðasjónarmið. Lögaðilar hafa ekki kosningarrétt og í stjórnarskránni er ekki gert ráð fyrir aðkomu þeirra sem þátttakenda að stjórnmálalífi.

Á fundi nefndarinnar þann 22. mars 2010 lagði fulltrúi Hreyfingarinnar fram bókun þar sem nefndin hafði í hyggju að hunsa allflestar áherslur Hreyfingarinnar í málinu. Áherslur Hreyfingarinnar voru samandregnar í bókun ásamt fylgiskjali. Nokkru áður hafði Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, komið fyrir nefndina að beiðni fulltrúa Hreyfingarinnar. Á þeim fundi kom Svanur afar mikilvægum og skynsamlegum ábendingum á framfæri við nefndina. Þær ábendingar fólust m.a. í því að nauðsynlegt væri að gera framlög lögaðila til stjórnmálasamtaka óheimil.

Frú forseti. Hreyfingin lagði fram eftirfarandi bókun á fundi nefndar um endurskoðun laga nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, þann 22. mars 2010, með leyfi forseta:

„Í 1. gr. laganna sem nefndin hefur til endurskoðunar er kveðið á um markmið þeirra:

„Tilgangur laga þessara er að kveða á um fjárframlög til stjórnmálasamtaka og stjórnmálastarfsemi, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum. Markmið laganna er að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið.“

Hreyfingin hefur í störfum nefndarinnar viðrað ákveðin sjónarmið. Á grundvelli þeirra sjónarmiða hafa tillögur verið lagðar fyrir nefndina. […] Helstu áherslur Hreyfingarinnar eru:

Dregið verði úr fjárþörf stjórnmálasamtaka.

Framlög lögaðila verði óheimil.

Framlög einstaklinga verði hámörkuð við 200 þús. kr. og upplýsingaskylda verði á öllum framlögum sem eru hærri en 20 þús. kr.

Jafnræðis milli stjórnmálasamtaka verði gætt við úthlutun opinberra framlaga.

Framlög miðist við kostnað vegna reksturs á skrifstofu og fundaraðstöðu af hóflegri stærð í hverju kjördæmi. Jafnframt dugi framlög til greiðslu launa fyrir eitt stöðugildi framkvæmdastjóra (á landsvísu) og hálft stöðugildi í hverju kjördæmi fyrir sig.

Framlög til þingflokka frá Alþingi verði þau sömu fyrir alla flokka.

Hóflegt framlag að upphæð 12 millj. kr. til hvers stjórnmálaafls sem býður fram á landsvísu vegna reksturs framboðsins. Hlutfallslegt framlag til þeirra sem bjóða fram í færri kjördæmum.

Að nefndin beiti sér fyrir því að sambærilegar reglur verði teknar upp á Íslandi og tíðkast víðast hvar í Evrópu um auglýsingar stjórnmálasamtaka, þar sem auglýsingar í ljósvakamiðlum eru ýmist bannaðar eða mjög takmarkaðar. Ísland er frávik í þeim efnum.

Að nefndin beiti sér fyrir því að aðgengi framboða að ljósvakamiðlum í aðdraganda kosninga verði tryggt með skylduákvæði í lögum sem geri ráð fyrir endurgjaldslausum kynningum framboða með svipuðum hætti og „Party Political Broadcast“ í Bretlandi.

Af ofangreindu fæst ekki annað ráðið en að tillögur Hreyfingarinnar séu í fullu samræmi við markmið laganna og stuðli að framgangi tilgangs þeirra. […] Á tímum þegar traust almennings á stjórnmálastarfsemi mælist í lágmarki í kjölfar samfélagshruns þar sem samkrull fyrirtækja, fjölmiðla og stjórnmálasamtaka hafði víðtæk áhrif eiga stjórnmálasamtök að axla ábyrgð og gera breytingar á því fyrirkomulagi sem illa hefur reynst. Því lýsir Hreyfingin yfir vonbrigðum með áform annarra stjórnmálasamtaka um áframhaldandi samráð um sjálftöku úr almannasjóðum til eigin þarfa. Hreyfingin styður málið ekki í núverandi mynd.“

Með sanni er ánægjulegt að samstaða hafi náðst um það að takast á við lýðræðishallann og hefur ríkisstjórnin tekið tillit til þeirra sjónarmiða Hreyfingarinnar að styrkja ný framboð þegar þau leggja fram lista til framboðs til yfirkjörstjórnar. Þá hefur verið lagt til að „Party Political Broadcast“-hugmyndin verði tekin fyrir á vettvangi menntamálanefndar og er það vel.

Í þessu frumvarpi er lagt til að fyrirtæki geti stutt flokka um 400 þús. kr. en sú upphæð var upprunalega 300 þús. kr. Þá er sú nýbreytni að öll fyrirtæki verða að gefa upp styrki til flokka án nafnleyndar. Einstaklingar þurfa aftur á móti ekki að gera slíkt hið sama og geta lagt fram fjárhæðir í skjóli nafnleyndar. Þá er ekki tekið fyrir það að einstaklingar geti tekið við fjárframlögum bæði frá fyrirtækjum og einstaklingum en samkvæmt því sem hefur komið fram í kjölfar rannsóknarskýrslunnar er ljóst að taka verður fyrir að einstaklingar þiggi styrki. Það er best að draga línuna þar frekar en að reyna að búa til excel-skjal um það frá hverjum megi þiggja peninga. Betra vinnulag væri t.d. að allir þeir sem fara í prófkjör fái sömu upphæð sem flokkurinn útdeilir úr einhvers konar prófkjörspotti. Það er ljóst miðað við það sem fram hefur komið í skýrslu rannsóknarnefndarinnar að þær upphæðir sem hér tíðkuðust voru handan við allt það sem hægt er að skilgreina sem eðlilegar upphæðir til einstaklinga og flokka.

Það er gott að verið sé að draga enn skarpari línur um fjármál flokkanna en eins og fram hefur komið finnst okkur í Hreyfingunni flokkarnir taka sér allt of háar upphæðir úr almannasjóðum. Ef flokkar eru stórir fá þeir væntanlega vænan skerf frá félögum í þeim í formi félagsgjalda. Mér er alla vega alveg fyrirmunað að skilja af hverju það er svona dýrt að halda utan um það grasrótarstarf sem flokkarnir halda úti.

Frú forseti. Nú kreppir að þjóðinni. Formenn flokkanna ættu að setja gott fordæmi með því að skera verulega niður í framlögum til sinna eigin flokka. Ég verð að segja að mér finnast þær háu upphæðir sem renna úr ríkissjóði til flokkanna hreinlega ekki réttlætanlegar miðað við það árferði sem við búum við. Svo er það ekki nóg, það á líka að hvetja til þess að fyrirtæki og einstaklingar styðji flokkana þannig að í raun og veru hefur ekki orðið nein eðlisbreyting eða hugarfarsbreyting gagnvart tengslum á milli þingheims og fjármálaheims. Það er stefna Hreyfingarinnar að rjúfa þau tengsl og því getum við ekki stutt þetta frumvarp þrátt fyrir að gott sé að reglurnar hafi verið skerptar.

Hreyfingin tekur jafnframt enn og aftur undir álit siðfræðinga um að einstaklingar eigi aldrei að þiggja styrki. Siðferðisþrek stjórnmálamanna virðist ekki hafa tekið stakkaskiptum þrátt fyrir áfellisdóm skýrslunnar og enn skýlir fólk sér á bak við lagahyggju í stað siðferðisþreks. Því treysti ég því miður ekki að við getum tekið okkur Svía til fyrirmyndar en þar er einstaklingum heimilt að þiggja peninga en þrátt fyrir þá lagaheimild er hefð hjá þeim að einstakir stjórnmálamenn þiggja ekki peninga.

Frú forseti. Nú er lag fyrir stjórnmálamenn úr öllum flokkum að setja sér siðareglur og fjármál ættu að vera þungamiðja þeirrar umræðu sem slík sjálfsskoðun mundi kalla eftir. Ef til vill eigum við heimsmet miðað við höfðatölu í siðferðisþreki og þurfum því engin lög sem banna tengingar á milli fjármálaheims og þingheims. Ekki ætla ég að dæma um það en hefði talið farsælast í ljósi nýfenginnar skýrslu að horfast í augu við það sem kemur þar svo skýrt fram.