Fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda

Mánudaginn 10. maí 2010, kl. 17:25:11 (0)


138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[17:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og mér finnst umræðan vera afskaplega dauf. Það er eins og menn hafi engan áhuga á þessu en það er eins og með margt annað þessa dagana á Alþingi að verið er að ræða mjög stóra og þunga málaflokka, eins og barnaverndarlög, en það er engin umræða. Frú forseti, ég veit ekki alveg hvað veldur þessu mikla áhugaleysi. Nú er komið fullt af nýju fólki inn á þing og ég hélt að menn hefðu þá áhuga á ýmsum málum en hér renna málin í gegn hvert á fætur öðru nánast án málefnalegrar umræðu.

Ég ætla að ræða um það hvernig við ætlum að hafa pólitíkina. Hvernig ætlum við að raða fólki á lista eða í framboð? Viljum við hafa þetta litla klíku, tíu manns, bara flokkseigendafélagið sem velur inn? Þessi hérna, mér líkar vel við hann, hann hefur stutt mig vel og dyggilega hingað til og ég er búinn að lofa honum því að hann fái gott sæti að launum. Viljum við hafa það þannig eða viljum við að það séu kjörnir kjörmenn, stærri hópur, kannski 200 manns sem velji þá frambjóðendur á lista? Viljum við hafa prófkjör þar sem eru bara þeir sem hafa greitt félagsgjöld í viðkomandi flokk? Eða viljum hafa það eins og stundum hefur verið gert í Sjálfstæðisflokknum að þeir sem eru skráðir flokksmenn eða lýsa yfir stuðningi við flokkinn taka þátt í prófkjöri? Þá erum við allt í einu komin með kannski 10.000–20.000 manns. Það er nefnilega dálítill munur á því, frú forseti, að hafa samband við 200 manns eða 20.000. Það er töluvert meira umleikis að ná í 20.000 manns. Viljum við kannski hafa alla með? Það hefur verið reynt líka. Ég man að á Siglufirði voru nokkur prófkjör og það voru 110% sem kusu. Það lýsir miklum áhuga, sérstaklega á öðrum flokkum en sínum eigin. Þetta er mjög erfitt. Vilja menn stunda auglýsingar eða úthringingar? Vilja menn hafa fræðsluerindi eða hvernig vilja menn hafa þetta? Á að leyfa smölun þar sem heilu bekkjunum er smalað úr menntaskólunum til að kjósa og svo veit fólk ekki einu sinni hvaða flokk það er að kjósa, hvað þá frambjóðendur, það fær bara upplýsingar um það. Hvernig viljum við hafa þetta yfirleitt?

Ég benti áðan á möguleika á því að fara í kringum reglurnar. Þeir eru alveg endalausir. Hvað gerist ef einhver ræður mig til að halda fræðsluerindi, nákvæmlega eins og ég hélt í prófkjörinu, og borgar mér meira að segja laun fyrir, borgar auglýsingar, salinn og allt saman? Hvernig ætla menn að halda því aðgreindu hvort ég sé að halda erindi sjálfur og borgi sjálfur fyrir það eða hvort einhver styrki mig og borgi mér laun á meðan? Hvernig ætla menn að fara með það t.d. ef stofnað yrði sögufélag Jóns Baldvins Hannibalssonar, svo ég nefni einhvern ágætan mann, hæstv. fyrrverandi ráðherra, sem sérhæfir sig í rannsóknum á arfleifð vinstri manna? Það sögufélag kæmi iðulega með mikla og vandaða úttekt á gerðum vinstri manna rétt fyrir kosningar og fengi náttúrlega styrki frá velunnurum sem vildu styrkja sögufélag viðkomandi. Það var þetta sem gerðist í Þýskalandi. Þar voru styrkir til stjórnmála mjög takmarkaðir og þá fóru menn þessa leið. Hvernig ætla menn að koma í veg fyrir þetta?

Hvað ætla menn gera við fjölmiðla? Nú eru fjölmiðlamenn mjög stórtækir í pólitík og móta hana nánast. Hvað ætla menn að gera við það? Hvernig ætla menn að banna eða koma í veg fyrir að fjölmiðlamenn hampi sínum vini sem einhvern tímann studdi þá í stúdentapólitíkinni? Hann er indæll maður og hefur staðið sig alveg ljómandi vel alls staðar, er þáttur sem gæti komið inn.

Síðan segir hér að hámark til eins fyrirtækis sé einhver ákveðin upphæð, 400 þús. kr. eða hvað það nú er. Hvað gerist ef menn eiga mörg fyrirtæki, eitt um stóðhestinn, annað um bestu kúna á býlinu, svo ég tali bara sem bóndi, og svo eru menn með hlutafélag um jörðina? Þessi þrjú félög geta styrkt hvert sinn mann. Þá þarf að fara að kanna tengsl o.s.frv. Ég get hugsað upp mörg dæmi, frú forseti.

Sumir eru með fléttulista, þá eru á listanum karl, kona, karl, kona, karl, kona, eða kona, karl sem er sjaldnar. Það brýtur allt lýðræði. Ef það eru eintómar konur í fjórum efstu sætunum, á þá að ryðja einni út bara til að koma að karlmanni eða tveimur. Hvers lags lýðræði er það? Á einhver maður að missa sæti sitt bara af því að hann er kona, eða af því að hann er karlmaður sem er yfirleitt? Það er alls ekki einfalt hvernig á að velja fólk.

Segja má að það sé kannski ágætt að hafa það þannig að menn borgi bara prófkjörin sín sjálfir. Þá komast bara ríkir menn á þing og kannski vilja menn hafa það þannig. Ég held þó að menn vilji það ekki heldur. Mér finnst umræðan vera svo skrýtin að þetta er alveg með ólíkindum.

Vilja menn að bara þekkt fólk, fjölmiðlafólk og slíkt, komist á þing ef það má ekki kynna sig? Hvað á ungt og hæfileikaríkt fólk að gera sem vill koma sér á framfæri og taka þátt í stjórnmálum en enginn þekkir af því að það er nýkomið úr háskóla, löngu háskólanámi erlendis? Hvað á það að gera? Hvernig á það að láta til sín taka? Menn þurfa að svara þessu áður en þeir koma með öll þessi boð og bönn um styrki. Það kostar nefnilega að koma sér á framfæri.

Ég hef í sjálfu sér enga einfalda lausn á þessu af því að við allar lausnir sem ég kem með sé ég einhverja leið til að komast fram hjá þeim. Ég ætla samt að stinga upp á einni lausn en hún er þó afskaplega lituð af forsjárhyggju sem mér líkar heldur ekki vel við.

Það er að allir flokkar hefðu sameiginlegt prófkjör, sem sagt ákveðinn dag þremur mánuðum fyrir kosningar yrði sameiginlegt framboð allra flokka og kosningabaráttan mætti standa í nákvæmlega fjórar vikur. Nefnd allra frambjóðenda í viðkomandi kjördæmi færi síðan yfir öll útgjöldin. Það er nefnilega svo erfitt. Segjum að eitthvert fyrirtæki borgi fyrir mig bækling, eins og einu sinni gerðist — ég hef annars aldrei tekið við styrkjum en fyrirtæki borgaði fyrir mig bækling — þá væri það bara fært hjá fyrirtækinu sem kostnaður. Hvað ætla menn að gera við því? Þá þarf að fylgjast með því hver virkni viðkomandi frambjóðanda var og fylgjast með því nákvæmlega hvort þeir voru með pítsupartí eða auglýsingar í útvarpi eða sjónvarpi. Einhver þarf að fara í gegnum þetta allt saman og fá staðfest hvað þetta kostaði. Það yrði sett eitthvert hámark á framboðin eða jafnvel yrðu framboðin greidd úr sameiginlegum sjóðum.

Þá kemur að því að þingmenn geta notað þennan ágæta stól sem ég stend í sem markaðssetningu í prófkjöri. Þess vegna ættu í rauninni þingmenn, sérstaklega ráðherrar, að mega eyða miklu minna en aðrir sem þurfa að kynna sig nýja til sögunnar. Ég vildi að menn skoðuðu svona leiðir líka í stað þess að vera með þessi miklu boð og bönn með styrkina.

Það er nefnilega þannig, eins og áður hefur komið fram í umræðunni, að menn vilja kannski styrkja ákveðinn málstað. Þeir vilja kannski ganga í Evrópusambandið og þar af leiðandi styrkja þá frambjóðendur sem vilja ganga í Evrópusambandið, eða öfugt og kannski styrkja þá sem eru harðastir á móti því að ganga í Evrópusambandið af því að þeir sjálfir hafa þá sannfæringu að við eigum ekkert erindi þangað. Ég held að menn þurfi að skoða þessi mál miklu málefnalegar og reyna að sjá kosti og galla og leiðir fram hjá í stað þeirrar umræðu sem hefur farið fram hingað til, að styrkir séu af hinu illa og það þurfi að banna þá eins og mögulegt er. Ég held að það sé góð leið sem menn fara yfirleitt og það er að upplýsa um styrkina þannig að menn viti hverra hagsmuna viðkomandi gengur. Ég er þó alveg sammála því að mjög miklir styrkir frá einstökum aðilum geta gert það að verkum að viðkomandi er mjög háður styrkveitandanum. Enn þá verra verður það ef einhverjum er lánað mjög mikið til að halda uppi ákveðnum lífsstíl. Segjum að einhverjum manni sé lánað fyrir tveimur húsum og jeppa sem hann hefur ekki efni á að borga af, þá er hann náttúrlega mjög háður þeim sem lánaði honum. Það eru kannski hættulegustu tengslin en þau hafa mjög lítið verið skoðuð, hvernig er að skulda mikið og hvernig maður er tengdur þeim aðila. Menn hafa horft mikið á eignatengsl, sem ég held að séu mikið veikari, en skuldatengsl eru mjög hörð og föst.