Rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja

Mánudaginn 10. maí 2010, kl. 18:16:14 (0)


138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja.

504. mál
[18:16]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mjög mikilvægt mál en ég kem þó ekki upp til að endurtaka það sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði. Ég er einn af flutningsmönnum þessa frumvarps og vil fyrst og fremst árétta nokkur atriði sem ég tel mjög mikilvæg. Ég tek að sjálfsögðu undir það sem fram kom í ræðu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, og er honum sammála um flest, ef ekki allt, í því.

Ég er dálítið hugsi varðandi rannsóknarskýrsluna. Það sem ég tel mikilvægast er lærdómurinn sem við drögum af henni. Að sjálfsögðu erum við ekki búin að fara yfir rannsóknarskýrsluna á þann hátt að hægt sé að segja að við höfum ekki dregið þann lærdóm af henni sem okkur er ætlað að gera. Það sem ég hef verið hugsi yfir, í kjölfar þess að skýrslan kom fram og eftir umræður og vinnu í þinginu og ekki síst í nefndum þingsins, er hvort við séum að læra af því sem miður fór. Ég held að eitt af markmiðum frumvarpsins sé að læra af því sem fór svo illa, til að koma í veg fyrir að við gerum þessi mistök aftur.

Það er alveg rétt sem fram kom í máli hv. þingmanns, að á því tímabili sem um ræðir voru margar mikilvægar ákvarðanir teknar. Það er rétt og skylt að fara yfir þær ákvarðanir og kanna hvort þær voru réttar. Það vakir ekki fyrir mér að hengja mann og annan í kjölfarið, það er ekki refsingin sem vakir fyrir mér. Ég vil vita hvort allar þær ákvarðanir sem teknar voru á þessum tíma voru réttu ákvarðanirnar. Eru þær málefnalega rökstuddar og er farið eftir öllum lögum og reglum sem við viljum að farið sé eftir? Þetta snýst um traust, þetta snýst um hvort við séum að byggja samfélagið upp með réttum aðferðum en þetta skiptir líka máli í ótal mörgu öðru tilliti, t.d. varðandi samkeppnisstöðu fyrirtækja. Ég veit að hv. þingmaður, 1. flutningsmaður þessa máls, hefur skoðað það mikið og við saman í viðskiptanefndinni, þar sem ég átti sæti þar til fyrir skömmu síðan.

Auðvitað heyrir maður alls konar sögur og hringt er í mann og kvartað um eitthvert athæfi. Bankarnir hafa ekki alltaf verið í þeirri stöðu að geta svarað fyrir sig. Þess vegna held ég að það sé líka gott fyrir bankana, og þá sem hafa tekið þessar ákvarðanir, að þetta sé skoðað. Þá er hægt að hreinsa mannorð þeirra, ef svo mætti segja, ef í ljós kemur, sem vonandi verður, að menn hafi farið eftir lögum og reglum. Ég vildi nefna þetta því lærdómurinn er sá að koma í veg fyrir mistökin, tryggja að samkeppni og samkeppnisreglur séu virtar í uppbyggingunni. Það skiptir afskaplega miklu máli að það sé ekki einhver aðili út í bæ sem getur ákveðið af handahófi hvaða fyrirtæki lifir og hvaða fyrirtæki deyr. Við verðum að tryggja að rekstrarumhverfi fyrirtækja sé eins gott og það mögulega getur verið.

Varðandi sparisjóðina, sem nefndir voru í andsvari áðan, þá tel ég mjög mikilvægt að farið sé ofan í þá sauma. Ég tek kannski þar við boltanum frá hv. þm. Guðlaugi Þ. Þórðarsyni, ekki síst hvað varðar stefnumótun varðandi sparisjóðina. Það tel ég að þurfi virkilega að skoða og ég sakna þess í þingsályktunartillögu þingmanna Vinstri grænna sem var lögð fram. Ég hefði viljað sjá frekari áréttingu á því. Í tillögunni sagði að rannsóknin ætti að standa til dagsins í dag, en mér fannst ekki nóg talað um ferilinn eftir hrun. Það voru heimildir í neyðarlögunum til að grípa inn í og koma með stofnfé, það voru settar reglur, en samt sem áður dróst þessi ferill. Ég vil fá að vita hvernig samningaviðræðum ríkisins við kröfuhafa og sparisjóðina vatt fram. Ég hefði viljað sjá ítarlegri umfjöllun um það í þessari tillögu. En það var ekki og þá stendur það væntanlega upp á sjálfa mig að gera eitthvað í því og óska eftir að farið verði ofan í saumana á því máli.

Virðulegur forseti. Ég vil að endingu árétta stuðning minn við þetta góða mál. Andsvar hv. þm. Björns Vals Gíslasonar áðan vakti hjá mér ákveðnar vonir um að hægt sé að ná þverpólitískri samstöðu um að koma því í gang hið fyrsta. Ég held að fátt sé því til fyrirstöðu að þessi nefnd verði sett á laggirnar í góðu samstarfi allra flokka.