Rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja

Mánudaginn 10. maí 2010, kl. 18:34:31 (0)


138. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2010.

rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja.

504. mál
[18:34]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta mikið, ég vil bara þakka kærlega þeim hv. þingmönnum sem tóku til máls undir þessum lið. Þrátt fyrir að ég sé afskaplega ánægður með ræður hv. þingmanna Ragnheiðar E. Árnadóttur og Péturs H. Blöndals vil ég nota tækifærið og þakka sérstaklega hv. þm. Lilju Mósesdóttur og hv. þm. Birni Val Gíslasyni. Það vekur vonir um það, og ég er alveg sannfærður um það eftir að hafa hlustað á þessar ræður stjórnarliða, að við getum náð breiðri og góðri sátt og samstöðu um að klára þetta mál sem fyrst.

Við erum öll sammála um það hve mikilvægt þetta er — ef ég nefndi ekki nógu skýrt mikilvægi þess þá kom það allt fram í ræðum hv. þingmanna sem töluðu hér á eftir mér. Eins og hér kom fram erum við að tala um gríðarlegar upphæðir sem búið er að afskrifa og voru afskrifaðar á þessu tímabili og verða afskrifaðar í nánustu framtíð. Það hefur því aldrei verið mikilvægara að gæta jafnræðis- og sanngirnissjónarmiða og ég fullyrði að það er ekki tilfinning manna þegar menn sjá hvernig gengið hefur verið frá fyrirtækjum oft til fyrri eigenda þeirra, ef þannig má að orði komast, án að því er virðist mjög skýrs og góðs rökstuðnings. Það er umhverfi sem vekur upp fleiri spurningar en svör. Þess vegna verðum við að fara í þetta verkefni, því fyrr sem við gerum það því betra, og ég hlakka til að vinna þetta mál í hv. viðskiptanefnd með stjórnarliðum þar. Viðskiptanefnd er nú búin að ganga frá ansi mörgu síðan hún tók til starfa eftir kosningar og er að taka yfir stór og mikilvæg mál. Þetta er eitt af þeim málum sem við verðum að hafa í forgangi. Ef við dveljum við þetta mál munum við auka vandann og auka tortryggnina.

Tvennt er alveg lykilatriði fyrir okkur, annars vegar að gengið sé hratt og örugglega í þessa fjárhagslegu endurskipulagningu og hins vegar að það sé traust á þeim vinnubrögðum og því verklagi sem þar er. Við munum ekki ná því fyrr en við erum búin að fara sérstaklega yfir þetta tímabil sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir nefndi réttilega að hefði misfarist að skoða sérstaklega. Þegar við erum búin að því erum við að skapa grundvöll fyrir trausti á fjármálamarkaðnum og við þurfum síðan að finna flöt á því hvernig við upplýsum almenning um það, hvernig við upplýsum til að mynda um afskriftir sem munu ekki skipta hundruðum milljarða heldur hærri upphæðum en það.

Virðulegi forseti. Við sjáum hér afskriftir upp á margföld íslensk fjárlög og það er lykilatriði að við vöndum til verka og að sérstaklega sé fylgst með því hvernig það er gert. Þess vegna er þetta mál lagt fram og ég þakka, virðulegi forseti, kærlega fyrir góð viðbrögð af hálfu stjórnarliða.