Vátryggingastarfsemi

Mánudaginn 17. maí 2010, kl. 17:32:07 (0)


138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[17:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er augljóst að hv. þingmaður hefur ekki lesið frumvarpið sem við ræðum, frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi, því að í 51. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Leiki vafi á því að mati Fjármálaeftirlitsins hver sé, eða verði, raunverulegur eigandi virks eignarhluta, skal það tilkynna viðkomandi aðila og vátryggingafélaginu að það telji viðkomandi aðila ekki hæfan til þess að fara með eignarhlutinn.“

Með öðrum orðum þarf að vera ljóst hver á í raun þennan virka eignarhlut til þess að Fjármálaeftirlitið samþykki viðkomandi aðila og þetta ætti því að tryggja að ekki verði farið í kringum málið. Þó getur vel verið að reynslan sýni að það sé hægt að fara í kringum þetta eins og svo margt annað. Þá er náttúrlega spurningin hvort málið ætti ekki að koma hingað aftur og finna leið til þess að koma í veg fyrir að þessi nýja leið í kringum lagabókstafinn verði farin. Liggja þarf ljóst fyrir hver í raun og veru er eigandi vátryggingafélagsins.