Vátryggingastarfsemi

Mánudaginn 17. maí 2010, kl. 18:52:44 (0)


138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[18:52]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég benti líka á í áliti mínu, nefndaráliti 1. minni hluta, var að erfitt hefði verið að taka afstöðu vegna þess að grunnvinnan fyrir ákvörðuninni er ekki til staðar, hún fylgir ekki með fylgigögnum frumvarpsins. Þannig er bent á að helsti rökstuðningurinn fyrir því að engin gagnkvæm vátryggingafélög séu starfandi á Íslandi sé að Alþingi breytti reglum um gjaldþol og afnam einkaréttinn og þar með séu félögin ómöguleg í staðinn fyrir að segja: Allt í lagi, við teljum þessi félög vera til hagsbóta fyrir samfélagið, við viljum hafa fjölbreytni á vátryggingamarkaði alveg eins og við viljum hafa fjölbreytni á sviði annarra fjármálastofnana, í verslunarrekstri og útfararþjónustu, þess vegna, þannig að við sjáum fyrir okkur hvers konar hagkerfi við viljum búa til.

Ég nefndi í nefndaráliti mínu að finna þyrfti jafnvægið á milli þess sem við köllum einkageira og ríkisvaldsins og þessa sameignarfélaga, félaga sem snúast fyrst og fremst um almannaheill. Síðan er náttúrlega ríkisvaldsins að tryggja að innan þessara þriggja rekstrarforma sé haft í huga að tryggja þurfi velferð samfélagsins þannig að rekstur eins fyrirtækis, tveggja eða þriggja eins og í okkar tilviki geti ekki gengið frá heilu samfélagi. Það hlýtur að vera hlutverk okkar sem löggjafi að sjá það fyrir okkur og finna leið til þess að búa til þess konar samfélag.