Vátryggingastarfsemi

Mánudaginn 17. maí 2010, kl. 20:36:26 (0)


138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[20:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég er komin hér í ræðustól til þess að þakka þeim fulltrúum viðskiptanefndar sem hafa setið hér fyrir góðar umræður. Þessi umræða hefur að vísu verið svolítið ómarkviss. Fjallað var um mörg önnur frumvörp sem viðskiptanefnd hefur verið að vinna í eins og frumvarp um innstæðutryggingar og frumvarp til laga um fjármálafyrirtæki, og umræðan hefur líka verið svolítið í pólitískum hjólförum. Sem dæmi um það má nefna að það er eins og margir hafi ekki lesið almennilega nefndarálit meiri hluta viðskiptanefndar þar sem m.a. er fjallað um hvers vegna ákvæði um gagnkvæm vátryggingafélög er tekið út, og ítrekað að með afnámi heimilda til að stofnsetja gagnkvæm vátryggingafélög er ekki verið að skerða réttindi t.d. félagasamtaka til þess að gefa félagsmönnum sínum kost á að standa að stofnun vátryggingafélags. Meiri hlutinn gengur lengra og telur jafnframt brýnt að löggjöf um vátryggingastarfsemi verði endurskoðuð komi í ljós að áhugi sé fyrir því að koma á fót gagnkvæmum vátryggingafélögum. Mér finnst því ansi djúpt í árinni tekið þegar talað er um að verið sé að banna gagnkvæm vátryggingafélög.

Hvað varðar þær breytingartillögur sem 1. og 2. minni hluti viðskiptanefndar leggja til, er ég sammála 1. minni hluta um nauðsyn þess að það þurfi að koma markmiðslýsing í upphafi laga um vátryggingastarfsemi til þess að tryggja að einstaka lagagreinar séu ekki túlkaðar þröngt eða úr samhengi við aðrar greinar laga um vátryggingastarfsemi.

Önnur breytingartillaga 1. minni hluta er við 56. gr. og varðar rétt endurskoðenda til þess að sitja stjórnar- og félagsfundi. Þessi grein er í raun ekki viðbót við 56. gr. því að þar stendur að endurskoðendur félags eigi rétt á að sitja stjórnar- og félagsfundi í vátryggingafélagi. Þetta er bara spurning um skýrara orðalag í breytingartillögu 1. minni hluta en ekki nýja grein eða viðbót.

Varðandi síðan ákvæði til bráðabirgða sem 1. minni hluti leggur til, að efnahags- og viðskiptaráðherra verði falið að skipa nefnd til að marka pólitíska stefnu og tillögur um löggjöf vegna vátryggingamarkaðarins, er alveg ljóst að sú tillaga er sprottin úr ábendingum sem koma fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Alþingi hefur einmitt falið þingmannanefnd, þar sem sæti eiga þingmenn úr öllum flokkum, að vinna tillögur upp úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis m.a. um það hvernig breyta þurfi lögum um fjármálamarkaðinn. Ég er því mjög hissa á fullyrðingum þingmanna Sjálfstæðisflokksins um að ekki sé hægt að endurskoða lög um vátryggingastarfsemi nema að taka þar með þann lærdóm sem hægt er að draga af rannsóknarskýrslunni. Við þurfum að bíða eftir og leyfa þingmannanefndinni að vinna sína vinnu og ég treysti henni vel til þess að koma með tillögur sem hv. viðskiptanefnd mun síðan vinna úr í haust. Það er því alveg ljóst að þetta frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi er bara eitt skref af mörgum sem löggjafinn þarf að stíga til þess að bæta hér regluverkið sem má segja að hafi verið brotið niður á mjög löngum tíma.

Varðandi breytingartillögur 2. minni hluta er þar fyrst og fremst verið að kvarta yfir því sem ekki er í breytingartillögum meiri hlutans. Það er m.a. kvartað undan skorti á pólitískri stefnumótun varðandi hvort skynsamlegt sé að viðskiptabankar hafi leyfi til að eiga vátryggingafélag. Þetta er ágæt ábending en sú pólitíska ákvörðun um að leyfa viðskiptabönkum að eiga vátryggingafélög var tekin á tíunda áratug síðustu aldar þannig að það er búið að taka þessa pólitísku ákvörðun. En það er náttúrlega góð ábending fyrir vinstri flokkana sem eru loksins komnir til valda, að endurskoða þetta fyrirkomulag eða alla vega að skoða afstöðu okkar til þess að viðskiptabankar hafi leyfi til að eiga vátryggingafélög.

Síðan er talað um að ekki sé tekið á ábyrgð skuggastjórnenda í frumvarpinu og breytingartillögunum. Það er rétt en ástæðan fyrir því er kannski sú að það eru a.m.k. tveir dómar fallnir þar sem tekið er á þessari ábyrgð þannig að það er dómaframkvæmd sem hægt er að nota varðandi þessa ábyrgð. Þar af leiðandi er ekki mjög brýnt að setja ákvæði um ábyrgð skuggastjórnenda inn í lög.

Það er jafnframt kvartað yfir því að ekki hafi verið ráðist í endurbætur á lögum um endurskoðendur en það hefur margoft komið fram á fundum viðskiptanefndar að slík endurskoðun er á döfinni.

Varðandi athugasemd 2. minni hluta um að ekki sé farið nógu vel yfir ástæður þess af hverju ekki er hægt að fara á svipaðan hátt með endurtryggingar og frumtryggingar, er ég ekki alveg með á hreinu hvað átt er við með því. Það eru auðvitað tilskipanir ESB sem setja okkur takmörk gagnvart því hvað er leyfilegt og hvað er ekki leyfilegt varðandi endurtryggingar og frumtryggingar. Það frumvarp sem við ræðum núna er m.a. til þess að innleiða tilskipun Evrópusambandsins um endurtryggingar.

Ég vil að lokum þakka enn og aftur fyrir þessar umræður hér í þingsal um frumvarpið og jafnframt geta þess að umræður um frumvarpið innan viðskiptanefndar voru mjög gagnlegar. Það komu góðar ábendingar frá minni hlutanum sem bættu mjög svo þær breytingartillögur sem meiri hlutinn endaði síðan á að gera. Þó svo að hér liggi fyrir þinginu tvö nefndarálit tel ég að það sé í raun mun meiri samstaða um þær breytingar sem verið er að leggja til á lögum um vátryggingastarfsemi en birtist í nefndarálitunum. Ég vil að lokum ítreka að það er rétt sem komið hefur hérna fram að sú heildarlöggjöf sem við ræðum hér er örugglega ekki nógu pottþétt til þess að koma í veg fyrir að bótasjóðir eða vátryggingafélög verði á einhvern hátt misnotuð. Meiri hlutinn gerir sér grein fyrir að þetta frumvarp er aðeins eitt af mörgum skrefum sem stíga þarf á næstunni til þess að bæta það lagaumhverfi sem fjármálamarkaðurinn býr við.

Aðeins eitt að lokum, ég vil geta þess að aðgerðaleysi einkennir oft þá sem eiga draum um fullkominn heim eða fullkomið regluverk og það var einmitt aðgerðaleysi sem rannsóknarnefnd Alþingis gagnrýndi varðandi aðdraganda bankahrunsins. Ég er þeirrar skoðunar að þegar maður ætlar að draga lærdóma af mörgum mistökum eigi maður að byrja strax að breyta þótt breytingarnar séu bara smávægilegar.