Vátryggingastarfsemi

Þriðjudaginn 18. maí 2010, kl. 14:18:15 (0)


138. löggjafarþing — 125. fundur,  18. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[14:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Á íslensku er þetta bara svona: Hér banna Vinstri grænir gagnkvæm vátryggingafélög. Það er ekkert öðruvísi. Helstu rökin eru þau að það langar engan til þess en ef einhver er til í það getur hann pantað eitt slíkt frumvarp.

Það er margt furðulegt að gerast í sölum þingsins en þetta held ég að sé einhvers staðar á topp tíu. Ég er ekki sérstakur áhugamaður um gagnkvæm tryggingafélög en af hverju í ósköpunum erum við að banna þau? Er þessi ríkisstjórn alveg týnd í því að banna hluti? Er það bara þannig að ef menn sjá eitthvað sem hugsanlega er hægt að banna, gera menn það? Ef þessi atkvæðagreiðsla fer eins og allt stefnir í er það þannig að norræna velferðarstjórnin bannar hér gagnkvæm vátryggingafélög. Ég mun fylgjast vel með af einskærum áhuga hvernig hæstv. heilbrigðisráðherra greiðir atkvæði í þessu máli.