Vátryggingastarfsemi

Þriðjudaginn 18. maí 2010, kl. 14:32:21 (0)


138. löggjafarþing — 125. fundur,  18. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[14:32]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Þessi grein snýst um það að verið er að herða á tímamörkum sem endurskoðendur mega starfa hjá hverju fyrirtæki og þeim tíma sem endurskoðunarfyrirtæki mega starfa hjá hverju fjármálafyrirtæki. Gott og blessað. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir sagði áðan að efnahags- og viðskiptaráðuneytið væri upptekið af því að herða reglur á fjármálamarkaði. Ég hefði kosið að efnahags- og viðskiptaráðuneytið væri upptekið af því að fara heildstætt yfir það hvernig við þurfum að breyta reglunum, herða þær eftir atvikum eða skoða þetta í stóra samhenginu. Þessi lagabreyting og þessi tímamörk, að færa þetta úr sjö árum, sem tíðkast annars staðar, niður í fimm ár, verður ekki til að koma í veg fyrir annað hrun. Þetta er ekki stórmál en þetta er prinsippmál og lýsir því vel að það er ekki nægileg hugsun í þessu máli.