Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 18. maí 2010, kl. 19:31:19 (0)


138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[19:31]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Það vekur nokkra undrun að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra skuli ekki hafa verið hér í þingsal þá tvo daga sem mikilvægir lagabálkar að mati ríkisstjórnarinnar hafa verið til umræðu á þinginu. Mér finnst það reyndar með ólíkindum að það sé skoðun hæstv. ráðherra að hann þurfi ekki að taka þátt í umræðu þegar svona brýn mál eru á ferðinni að mati ríkisstjórnarinnar þegar þessi frumvörp eru annars vegar.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra talaði mikið áður en hann varð ráðherra um það efni sem hér er til umræðu og ég minnist þess árið 2005 þegar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sagði að það væri mikilvægt þegar litið væri til vaxtar fjármálakerfisins, bankakerfisins, að eftirlit og regluverk þvældist nú ekki um of fyrir þeim vexti sem þar væri svo brýnn. Það væri vel áhugavert að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra í því efni núna. Hann hefur þó á umliðnum mánuðum töluvert breytt um skoðun en hann hefur ekki skýrt, finnst mér, með fullnægjandi hætti hvað hann átti við þegar hann lét þessi orð falla.

Ég minnist þess þegar ég starfaði á vettvangi fjármálageirans í Kauphöll Íslands í kringum árið 2000, eða 1999–2002, þegar hin útrás svokallaða var rétt að byrja, hvernig regluverk var við að etja. Helsta vandamálið sem blasti þá þegar við var það hversu grunnur íslenski markaðurinn var og einnig hversu stutt á veg við vorum komin í því að frelsa þennan markað sem síðan óx svo óskaplega mikið sem raun varð á. Við þurfum ekki að fara yfir það sem síðan gerðist með einkavæðingu bankanna, það hefur komið fram í ræðum manna hér í dag, m.a. hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni, að margt hafi þar farið úrskeiðis og við sjálfstæðismenn höfum sagt að það sé alveg rétt að þar hefði verið heppilegra ef menn hefðu ekki farið þessa kjölfestufjárfestaleið sem valin var þegar bankarnir voru einkavæddir.

En ég er dálítið undrandi á verklagi ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna nú þegar við ætlum að byggja kerfið aftur upp og skoða hvernig best er að gera það. Ég er ekki síst undrandi vegna þess að við höfum talið, ég hygg að það sé jafnvel skoðun allflestra þingmanna, að það væri nauðsynlegt fyrir Alþingi að láta rödd sína heyrast betur, taka meiri þátt í umræðu, koma betur að mótun reglna. Það kemur mér það satt að segja verulega á óvart þegar um er að tefla breytingar á regluverki sem varða það svið þjóðfélagsins sem hrundi gjörsamlega að menn skuli kveina yfir því og það kemur mér líka á óvart hversu fáir úr öðrum flokkum taka þátt í þeirri umræðu, ég verð að segja það.

Hvað er það sem þarf að gera þegar uppbygging efnahagslífsins blasir við? Hvernig á Alþingi að fara að því að takast á við það verkefni?

Ég hef hlustað á þessa umræðu hér í dag og það er alveg ljóst að af hálfu Sjálfstæðisflokksins er nokkur samhljómur í þeim skoðunum sem þar eru uppi. En eitt vil ég segja og leggja inn í þessa umræðu sem varðar verklag hér í þinginu, ég heyrði í hv. þm. Lilju Mósesdóttur í gær þegar talað var um breytingar á vátryggingalögum. Hún sagði að það væri mikilvægt að taka lítil skref áfram, það væri svo mikilvægt að sýna merki þess að við værum að breyta. Það má að vissu leyti segja að það sé mjög nauðsynlegt að menn hafi þá tilfinningu að verið sé að reyna að læra af því sem miður hefur farið.

Ég held að sé ekkert síður mikilvægt, og það er það sem skiptir kannski mestu máli, að við sjáum hvert verið er að stefna. Í stað þess að koma með hluta af þeim breytingum eða því breytingarferli sem til stendur að fara í, í frumvarpsformi eins og hér hefur verið gert velti ég fyrir mér hvort við ættum að taka upp aðra siði hér á þingi og ræða fyrst stefnumótunarplögg og ná svo samkomulagi eða takast á um það eftir atvikum. Við þekkjum þetta frá útlöndum þar sem menn tala um hvítbækur og grænbækur o.s.frv., þar sem ríkisstjórnin leggur fram stefnumörkun sína á sviði fjármálastarfsemi og það er svo rætt á vettvangi þingsins. Síðan mundi stjórnsýslan í framhaldinu koma með nánari útfærslur á þeim hugmyndum sem hafðar eru uppi og jafnvel geta eftir atvikum tekið mið af því sem löggjafarsamkundan hefur rætt í meðförum sínum á slíkum skýrslum.

Ég held að það sé ástæða til þess á þessum tímamótum, nú erum við með heila rannsóknarskýrslu undir. Hún hefur oft verið nefnd hér í dag. Þar eru ýmsar ábendingar. Margir telja að það muni koma margar tillögur fram frá þingnefnd um rannsóknarskýrsluna um einstaka þætti í regluverki. Ég þekki það vel, ég veit alveg að það er hluti af því verkefni sem nefndinni er falið en ég held að einmitt af því tilefni sé ekki síður mikilvægt að þingið taki sér það frumkvæði að ræða í heild sinni um hvernig fara eigi með málið.

Mér er þetta sérstaklega hugleikið vegna þess að í þeirri nefnd sem ég vinn mest, í allsherjarnefnd, er verið að tala um breytingar á stjórnarskránni. Þar eru menn að hugleiða að færa þetta verkefni út úr þinginu og fara með það til stjórnlagaþings. Ég held einmitt að þar sé ástæða til þess að þingið fari í ákveðna stefnumótunarumræður. Mér fyndist vera bragur á því, á íslensku löggjafarsamkundunni, eftir allt sem á undan er gengið að taka slíkar ákvarðanir og sjá hvort einhver samhljómur fæst, samhljómur sem ég hygg að íslenskt þjóðfélag kalli svo mjög eftir þegar við sjáum að virðing Alþingis virðist enn fara þverrandi.

Ég hef lesið þetta frumvarp og þegar ég las það fór ég hugsa um regluverkið í heild sinni og þau kynni sem ég hafði af því hér á fyrri árum. Ég hef náttúrlega ekki getað fylgst almennilega með vinnunni í viðskiptanefnd því að ég sit ekki þar. Mér finnst mjög erfitt að leggja mat á þetta mál þegar ekki eru einu sinni breytingar í drögum sem hugsanlega verða gerðar á lögum um verðbréfaviðskipti, velferðarsjóði og ekki síst um Kauphöll Íslands.

Í rannsóknarskýrslunni er ekki sérstaklega mikið fjallað um hlut Kauphallar Íslands í því hruni sem hér varð. Ég sakna þess nú reyndar dálítið í þeirri skýrslu að þar skuli ekki meira gert úr eftirliti eða skoðun Kauphallarinnar á því sem gerðist. Ég veit að þegar Kauphöllin hét Verðbréfaþing voru aðilar á markaði sem voru þar í stjórn og Verðbréfaþingið var að hluta til í eigu markaðsaðila. Það þótti mörgum gagnrýnisvert, það var náttúrlega gert til þess að koma þessum markaði á fót til að styðja hann og styrkja í árdaga hans. Ég get ekki varist þeirri hugsun að það hafi verið Kauphöllinni fjötur um fót hversu sterkir markaðsaðilar voru í henni.

Það eru umfangsmiklar rannsóknir í gangi núna sem við sjáum til hvert leiða. Þær varða m.a. markaðsmisnotkun. Þar er enginn eða ætti enginn að vera betur til þess fallinn að fylgjast með markaðsmisnotkun en Kauphöllin.

Þess vegna hef ég mjög mikinn áhuga á vita hvaða sjónarmið ríkisstjórnarmeirihlutinn og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hafa þegar kemur að því að byggja Kauphöllina upp. Hún getur nefnilega, ef rétt er á málum haldið, skipt verulegu máli í því að koma fyrirtækjum aftur í almenna eigu og vera það súrefni sem við þurfum svo mjög á að halda. Ég hefði viljað sjá hvaða stefnumörkun er þar á ferðinni af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég hef ekki enn þá almennilega komið auga á hana. Sama er að segja um verðbréfaviðskiptin sjálf og þær reglur sem þar eru á ferðinni. Það á jafnframt við um verðbréfasjóði, lög um Seðlabanka, Fjármálaeftirlitið að sjálfsögðu og endurskoðendur. Mér finnst reyndar að þáttur endurskoðenda sé nokkuð sem við þurfum að skoða mun nánar og læra af.

Það voru nokkuð skiptar skoðanir um það þegar sú ákvörðun var tekin að flytja Fjármálaeftirlitið, eða Bankaeftirlitið eins og það hét, úr Seðlabanka Íslands og gera það að sjálfstæðri einingu, ekki síst vegna þess að með því að færa Bankaeftirlitið út úr Seðlabankanum hafði Seðlabankinn ekki jafnnáið samband við markaðsaðila og áður hafði verið. Ég hygg að það hafi svo sem komið í ljós nokkuð fyrir þessa atburði að menn höfðu rætt mikið um að það þyrfti að gera þar breytingar. Mér finnst ekki ástæða til þess að bíða mjög lengi með það. Ég held að væri mjög brýnt í þessu að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, viðskiptanefnd og Alþingi sjálft, taki ákvörðun um það hvort eðlilegt sé að gera breytingar á lögum um Seðlabanka, að færa Fjármálaeftirlitið þar undir, og við getum auðvitað velt því fyrir okkur hvort vátryggingareftirlitið eigi að vera þar líka. Það er náttúrlega praktískt mál sem þarf að leysa.

Við þurfum að hafa heildaryfirsýn, heildarstefnu um hvert við eigum yfirleitt að fara með það kerfi sem við höfum byggt hér upp og þurft að horfast í augu við að hefur brugðist okkur.

Ég lýsi eftir því að hæstv. ríkisstjórn sýni nú á spilin, segi hvernig hún sér þetta fyrir sér þegar nær dregur.

Enn fremur get ég ekki komið auga á margar ráðleggingar Finnans Kaarlos Jännäris í þessu frumvarpi, ég get tekið undir ýmislegt af því sem hann sagði. Sumt af því hefur ekki ratað inn í frumvarpið sjálft. Það gæti komið fram síðar. En ég held nú samt að það hefði verið gott að fá nánari upplýsingar um það hversu mikið samráð eða samstarf var haft við erlenda aðila, önnur lönd og upplýsingar um þá þróun sem er á regluverki annars staðar þegar þetta frumvarp var smíðað. Hvert var litið við þá stefnumörkun, sem ég hygg að hljóti að hafa verið unnið að í ráðuneytinu þótt hún hafi ekki ratað hingað? Reglurnar í Noregi þykja nokkuð strangar. Hafa menn litið sérstaklega til Norðmanna?

Bandaríski markaðurinn er afskaplega þróaður og gamall. Þar eru á margan hátt mjög strangar reglur. Ameríska fjármálaeftirlitið SEC hefur gríðarlega víðtækar heimildir til þess að grípa inn í hlutina. Ég mundi halda að einna helst þar hefðu náðst fram niðurstöður í dómsmálum sem varða atburði á markaði, markaðsmisnotkun, misnotkun á trúnaðarupplýsingum og slíkum hlutum, þannig að af því er hægt að læra.

Önnur lönd geta einnig dregið stóran lærdóm af atburðunum á Íslandi. Vegna þess að þessi ríkisstjórn hefur mikinn áhuga á því að sækja um aðild að Evrópusambandinu væri líka gagnlegt ef við fengjum upplýsingar um hvort reynsla okkar og það sem hér hefur gerst hafi með einhverjum hætti ratað inn í umræðu um breytingar á regluverki Evrópusambandsins.

Það er áberandi þegar maður les rannsóknarskýrsluna að þar eru nokkuð ítarlegar athugasemdir um regluverkið og það er viðurkennt af hálfu Evrópusambandsins að það þurfi að gera breytingar. Við þekkjum það líka þar sem hrun hefur orðið annars staðar í heiminum. En ég held að sé nú dálítið áhugavert fyrir okkur Íslendinga að horfa á þetta svona. Reynsla okkar og það sem hér hefur gerst getur líka skipt máli þegar þær reglur eru skoðaðar. Ég held að það væri fróðlegt að vita hversu mikið samtal hefur verið á milli íslenskra stjórnvalda og Evrópusambandsins eða þjóða á Evrópska efnahagssvæðinu þegar horft er til þessa regluverks eða hvort það hefur yfirleitt verið nokkurt samtal. Eða er það bara eins og í Icesave-málinu að við ætlum að taka á okkur allt en ekki þó með fullnægjandi hætti og gagnrýna Evrópusambandið fyrir þá hortitti sem eru í þeirra regluverki? Þeir eru reyndar verulega margir.

Það kemur líka á óvart að menn skyldu ekki ganga lengra varðandi eignarhlut eða dreifða eignaraðild þegar þetta frumvarp var smíðað. Ég hafði ekki hugmyndaflug frekar en aðrir til að gera mér grein fyrir því hversu mikið var hægt að þvæla eignarhaldi til að koma verðmætum og mikilvægum fyrirtækjum eins og bönkum á fárra manna hendur, einna, tveggja þess vegna.

Nú liggur fyrir þinginu frumvarp frá hv. þm. Pétri Blöndal þar sem hann leggur til að gerð sé breyting á hlutafélagalögum, að nýtt form verði þar sett inn. Ég held að það gæti verið fróðlegt fyrir þingið að ræða um það. Það eru fulltrúar allra flokka sem koma að því frumvarpi, ég held að það geti hjálpað verulega.

Jafnvel þótt menn hafi haft af því áhyggjur þegar bankarnir voru einkavæddir að kjölfestufjárfestar hefðu svo mikið eignarhald held ég að engum hafi dottið í hug það fyrirtækjanet sem aðilar á markaði bjuggu til til þess að tryggja yfirráð sín yfir bönkunum. Við sáum það síðast í Glitnismálinu, sem rekið er í öðrum löndum, hversu einbeittir menn voru í því að tryggja yfirráð sín yfir bönkunum. Við eigum auðvitað eftir að sjá hvað úr þessum málum verður, að það er ekki ástæða fyrir okkur að staldra við eða móta á þeim skoðanir fyrr en lengra er haldið. En það er alla vega alveg augljóst að það verður að hafa mjög skýrar reglur hvað þetta varðar og við verðum að sjá hvernig við komum síðan í framhaldinu þessum fyrirtækjum aftur í eigu annarra. Reyndar veit nú enginn hver á þessa tvo banka, Arion banka og Íslandsbanka. Ég hvet hv. viðskiptanefnd til þess að leysa úr því hverjir þessir aðilar eru, ég veit að það er vilji fyrir því í viðskiptanefnd, það er afar brýnt. (LMós: Búin að því.) Hv. þm. Lilja Mósesdóttir segist vera búin að því. Þær upplýsingar sem ég fékk voru að það væri eignarhaldsfélag sem á annað eignarhaldsfélag sem á annað eignarhaldsfélag, þannig að ég er engu nær. En hv. þingmaður getur kannski greint okkur frá því hverjir eiga Arion banka og Glitni banka í lokaræðu sinni á eftir.

Ég held að þetta frumvarp sé því miður ákveðið yfirklór. Stjórnarliðar eru ekki búnir að þróa það regluverk sem þarf að móta. Ég velti fyrir mér hver asinn er í rauninni, hvort væri ekki betra að menn setji sér heildarmarkmið á þessu sviði í stað þess að halda af stað með þetta mál og síðan vitum við ekkert hvað kemur næst.

Ég verð að segja að það er slæmt þegar menn geta ekki sagt hvernig þeir sjá fyrir sér þróun á lögum um verðbréfaviðskipti, um verðbréfasjóði og síðan hvernig verðbréfasjóðirnir voru nýttir í bankakerfinu með kaupum á eigin bréfum og alls konar hlutum til að ná yfirráðum með bönkunum. Þar er löggjöf sem er afskaplega brýnt að hv. Alþingi ræði ítarlega og velti fyrir sér hvernig eigi að haga til framtíðar.

Ég hef almennt verið þeirrar skoðunar og ég hef ekki skipt um skoðun hvað það varðar að við eigum að læra af reynslu annarra landa en í þessu tilliti held ég að önnur lönd geti lært af reynslu okkar. Ég er ekkert sérstaklega trúuð á séríslenskar lausnir en ég er hins vegar trúuð á að þegar menn meta regluverkið verði þeir að líta til þess samfélags sem hér er. Nú þarf að horfa til þess að við erum með lamað fjármálakerfi. Við erum með grunnan eða óvirkan markað. Við erum með peninga sem safnast upp í bönkunum. Við erum með lamað atvinnulíf. Við erum því miður í raun og veru með lamað efnahagskerfi. Við erum enn þá að glíma við stjórn peningamála. Þeir sem hafa haldið því fram að aðild að Evrópusambandinu þýði að við fáum stöðugan gjaldmiðil verða líka að gera grein fyrir því að það eru engar líkur til þess að sjálfur gjaldmiðillinn blasi við á næstu árum. Við erum langt frá því að uppfylla Maastricht-skilyrðin. Við þurfum að gera miklu betur þar.

Ég held að við Íslendingar verðum að líta þannig á að til þess að koma okkur upp úr þessu með skynsamlegum hætti þurfum við að fara í heildarstefnumótun. Hvert ætlum við að fara? Hvert ætlum við að stefna? Hvers konar reglur ætlum við að hafa? Ætlum við að fara aftur í sama kerfið og við höfðum áður? Erum við á þeirri skoðun að það hafi verið mistök að vera með kjölfestufjárfesta? Teljum við að það sé betra að hafa dreifða eignaraðild? Erum við t.d. þeirrar skoðunar að það eigi að gefa Íslendingum hlutabréf í ríkisbönkunum, bara senda þeim þau heim? Hvað viljum við? Hvernig viljum við sjá þetta?

Við áttum dálitla umræðu um þetta þegar bankarnir voru einkavæddir, þegar menn ræddu um hvernig best væri að fara í þá hluti. Það voru skiptar skoðanir í þessum sal um hvort við ættum að hafa kjölfestufjárfesta eða ekki. Það er sú umræða sem ég sakna svo að við þingmenn höfum ekki tekið. Þeir þingmenn sem ekki eru í viðskiptanefnd hafa einungis tækifæri til að ræða þetta í þessum stól. Þá er enginn hér til að ræða við. Ég er mjög þakklát fyrir að formaður og varaformaður viðskiptanefndar hafi setið undir allri þessari umræðu en hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sér ekki nokkra þörf á því að eiga þetta samtal við þingið. Hér þarf þessi stefnumótun að fara fram.

Mér finnst þetta lítið skref. Ég vil sjá hvert menn ætla að stefna. Ég sé að hv. varaformaður viðskiptanefndar hefur beðið um orðið og ég er mjög forvitin að vita (Forseti hringir.) hvort hann geti sýnt mér fram á þá stefnumótun sem fram undan er.