Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 18. maí 2010, kl. 21:02:33 (0)


138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[21:02]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alltaf minnugur orðanna úr Biblíunni, sælir eru hógværir. Þess vegna get ég fallist á að ég sé ekki óskeikull (Utanrrh.: Sælir eru einfaldir.) og — hvað sagði hæstv. utanríkisráðherra? Hann sagði ekkert — ég er alveg sannfærður um að við gerðum ýmislegt haustið 2008 sem við hefðum eftir á að hyggja hugsanlega átt að gera einhvern veginn öðruvísi.

Ég held hins vegar að eins og við lögðum drög að þessu hafi stefnumótun um viðreisn bankakerfisins í meginatriðum verið rétt. Í fyrsta lagi tókst fyrir kraftaverk og auðvitað atorku starfsfólks bankanna að halda úti bankaþjónustu. Okkur tókst líka að byggja upp íslenskt bankakerfi. Það má vel vera að efnahagsreikningar bankanna séu fullstórir en stóra málið var auðvitað að verja hina íslensku bankastarfsemi og íslensku innstæðurnar því að það var forsendan fyrir því að traust innstæðueigenda, almennings í landinu, ríkti gagnvart bankakerfinu.

Það er einmitt þessi spurning um traustið sem skiptir svo miklu máli. Nú erum við ekki í þeirri stöðu að þurfa að bregðast við á handahlaupum eins og við þurftum að gera á þessum örlagadögum í byrjun október 2008. Nú höfum við tækifæri til að horfa fram á veginn og reyna að læra af því sem reynslan kennir okkur. Meira að segja höfðum við ekki möguleika á því á þeim tíma vegna þess að við höfðum ekki gengið í gegnum alla þá reynslu sem við erum núna búin að ganga í gegnum. Ég held að í meginatriðum höfum við gert algjörlega rétt við þá stefnumótun sem varð grundvöllur neyðarlaganna þó að ég játi og ítreki að hvorki er ég óskeikull né ríkisstjórnin sem þá sat. Sannarlega örugglega er hægt að finna ýmis atriði (Forseti hringir.) sem ég ætla ekki að tíunda sem við hefðum getað gert betur og öðruvísi.