Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 18. maí 2010, kl. 21:10:43 (0)


138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[21:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, ég er mikill áhugamaður um sparisjóðakerfið. Ég tel að það eigi að hafa mjög mikið hlutverk í því fjármálaumhverfi sem við þurfum að sjá rísa hér á landi á næstu missirum.

Illu heilli ákvað ríkisstjórnin með frumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi á síðasta ári og fékk meirihlutastuðning Alþingis að heimila verulega niðurfærslu á stofnfé í sparisjóðunum sem gerir það að verkum að stofnfjáreigendurnir, þessar þúsundir stofnfjáreigenda úti um allt land, standa eftir mjög brenndir. Ég geri mér grein fyrir því að sú staða var ekki uppi að ekki yrði að færa niður stofnféð að einhverju leyti, en sú leið sem ríkisstjórnin valdi í þessum efnum mun gera það að verkum, a.m.k. fyrst um sinn, að stofnfjáreigendur í sparisjóðunum verða fyrst og fremst stóri bróðir, ríkið. Það verður auðvitað ekki mjög áhugavert fyrir alla þá sem kjósa að eiga viðskipti við sparisjóðina.

Ég veit ekki hvernig ríkisstjórnin hefur hugsað sér það, en ég vænti þess engu að síður að það verði þá gert með þeim hætti að ríkið reyni að selja þetta stofnfé. Vandamálið verður að finna kaupendurna og ég óttast að brenndir stofnfjáreigendur, fátækt fólk víða úti um landið, bændur úti um landið sem eru kannski núna að takast á við afleiðingarnar af öllu þessu, standi þá frammi fyrir því að geta ekki tekið þátt í þessari stofnfjáraukningu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að reyna að endurreisa stofnfjárkerfið. Það var ágætt eins og það var áður og fyrr, þá keyptu menn stofnfé, fengu síðan framreiknað með vísitölu og einhverri ávöxtun verðmætið eftir því sem tilefni var til og síðan, eins og ég hef bætt við, eitt gott fyllirí á aðalfundinum og menn undu sælir og glaðir við það. Það er einhvern veginn það fyrirkomulag sem ég mundi vilja hafa — með eða án fyllirísins.