Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 18. maí 2010, kl. 21:27:36 (0)


138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[21:27]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir ræðu hans, ég held að þetta sé önnur ræða hans í dag. Ég vil sérstaklega þakka honum fyrir mjög góða ábendingu varðandi 44. gr. Ég hef óskað eftir að málið fari aftur til nefndar milli 2. og 3. umr., að við ræðum það sérstaklega og skoðum það mun betur. Það var nánast engin umræða um þessa breytingartillögu frá meiri hlutanum í viðskiptanefnd og eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson benti á hafa ýmis mál komið inn í þingið sem menn hafa ekki skoðað alveg til enda. Stærsta málið sem við þekkjum er Icesave-málið sjálft, sem þingmaðurinn nefndi. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við skoðum mjög vel þessa breytingartillögu hjá meiri hlutanum.

Þingmaðurinn nefndi líka í ræðu sinni að þetta frumvarp kæmi frá stjórnarflokkunum þannig að það væri ástæða til að gagnrýnin beindist að þeim því að þeir væru ekki með neina pólitíska stefnumörkun hvað varðar þetta mál. Í minnihlutaáliti mínu bendi ég einmitt á að mér finnst skorta á pólitíska stefnumörkun hjá ríkisstjórninni almennt, ekki bara varðandi þetta frumvarp heldur mörg af þeim frumvörpum sem við erum að fást við innan viðskiptanefndar. Maður sér ekki hver heildarmyndin er. Hvað er það sem ríkisstjórnin ætlar sér að gera? Eru menn að tala um að endurskapa ástandið eins og það var 2006–2007 eða er einhver skýr mynd af því hvers konar fjármálamarkað við viljum hafa á Íslandi? Ég held að við séum sammála, við höfum náttúrlega fundið áþreifanlega fyrir hvað fjármálastofnanir skipta geysilega miklu máli, ekki vegna þess (Forseti hringir.) að þetta er mikilvæg atvinnustarfsemi, eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson nefndi í ræðu sinni, (Forseti hringir.) heldur vegna þess að þetta tryggir aðra mikilvæga atvinnustarfsemi í samfélaginu.