Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 18. maí 2010, kl. 21:34:30 (0)


138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[21:34]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Jú, við viljum svo sannarlega hafa fjölbreytni á fjármálamarkaðnum en því miður mun mannfæðin á Íslandi eflaust valda því að sú fjölbreytni verður að einhverju leyti takmörkuð. Ég skal koma inn á nokkur atriði sem mér finnst skorta á að betur sé fjallað um í þessum tillögum eða að reglurnar séu skýrari.

Eitt er þetta um eignarhaldið, þ.e. sú leið er farin í þessu frumvarpi að setja í sjálfu sér engin mörk á það hversu stóran eignarhlut einstakur aðili má fara með í fjármálafyrirtæki. Ég held að það sé ástæða til að staldra við þetta. Ég tel að við höfum farið ranga leið með því að byggja á kjölfestufjárfestum í bönkunum og að nú sé tækifærið til að leiðrétta það.

En gott og vel, jafnvel þótt við settum því einhver mörk að einstakir aðilar mættu eiga t.d. 20% er líka ástæða til að spyrja sig: Þurfum við ekki að setja strangari reglur um viðskipti viðkomandi aðila við þann banka? Í þessu frumvarpi eru engin mörk sett um stærð eignarhlutarins og það eru heldur ekki settar neitt sérstaklega strangar reglur um viðskipti sama aðila við bankann. Það er bara farin sú leið að segja að Fjármálaeftirlitið þurfi að meta fullnægjandi þær tryggingar sem standa að baki viðkomandi viðskiptum. Það er orðið mjög loðið og jafnvel teygjanlegt hvað er fullnægjandi, hlutabréf sem á einum tíma eru mjög verðmæt geta á öðrum tíma orðið verðlaus. Það er eitt af því sem reynslan hefur kennt okkur. Þá fer áhætta eigandans og áhætta bankans að blandast saman. Þarna finnst mér menn enn þá vera með hlutina dálítið loðna. Við erum að tala um að setja skýrari, strangari reglur um þætti af þessum toga.

Ég get alveg séð fyrir mér í sjálfu sér að einhver fari með stóran eignarhlut en eftir því sem hann er stærri þeim mun ríkari ástæða er til að takmarka viðskipti hans við bankann. Svo þurfum við að taka umræðuna um það hvort við viljum að þeir sem eru fyrirferðarmiklir í viðskiptalífinu annars staðar (Forseti hringir.) geti á sama tíma líka verið með stóran eignarhlut í bönkunum. Ég hef miklar efasemdir um það.