Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 18. maí 2010, kl. 22:11:11 (0)


138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[22:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Pétur Blöndal haldi áfram að svara spurningum mínum í seinna andsvari sínu. Mér finnst það mjög áhugavert sem við ræðum hér, hvort við eigum að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann. Ein af þeim spurningum sem ég spurði þegar við vorum að vinna málið í viðskiptanefnd var hver hefði verið ástæðan fyrir því að við skiptum þessu upp á sínum tíma. Fjármálaeftirlitið, eða bankaeftirlitið eins og það var kallað þá, var eitt sinn deild innan Seðlabankans.

Mér skilst að ástæðan fyrir því hafi verið sú að þeir sem stjórnuðu Seðlabankanum, hagfræðingarnir og þeir sem höfðu meiri áhuga á peningamálum, hefðu sinnt þessu bankaeftirliti að mjög litlu leyti og það hefði verið mjög mikil barátta bara fyrir bankaeftirlitið að fá næga athygli frá yfirmönnum sínum og nægilegt fjármagn til þess að geta sinnt þeim verkefnum sem það átti að sinna.

Það þótti líka mikilvægt að tryggja betur sjálfstæði stofnunarinnar og menn fóru síðan hreinlega of langt, það átti að verða þannig að það átti helst ekki að koma nálægt Fjármálaeftirlitinu og því sem það var að gera.

Mér þætti líka mjög áhugavert að heyra, af því að þingmaðurinn hefur lagt fram mjög gott og áhugavert frumvarp með nýjum hugmyndum varðandi gagnsæ hlutafélög, hvernig það tengist síðan þeim hugmyndum sem komið hafa fram í málflutningi sjálfstæðismanna í dag um dreifða eignaraðild eða eignarhald á fjármálastofnunum. Gengur það upp? Hv. þm. Bjarni Benediktsson og fleiri hv. þingmenn töluðu um þeir sæju fyrir sér að setja einhvers konar 20% hámark. Hvernig samræmast þær hugmyndir hugmyndum hv. þm. (Forseti hringir.) Péturs Blöndals um gagnsæi hlutafélaga?