Eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu

Þriðjudaginn 18. maí 2010, kl. 22:14:56 (0)


138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

eftirlit með þjónustu og hlutum sem hafa hernaðarlega þýðingu.

115. mál
[22:14]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um eftirlit með þjónustu og hlutum sem hafa hernaðarlega þýðingu. Það er nefndarálit utanríkismálanefndar og nefndin stóð einhuga að þessu nefndaráliti.

Gréta Gunnarsdóttir og Pétur G. Thorsteinsson frá utanríkisráðuneytinu mættu á fund nefndarinnar og útskýrðu efni málsins. Jafnframt bárust ellefu umsagnir um frumvarpið sem nefndin gaumgæfði.

Markmið frumvarpsins er að auka alþjóðaöryggi og tryggja virðingu fyrir mannréttindum í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir með því m.a. að hafa eftirlit með, banna og/eða leyfisbinda útflutning á hlutum sem má nota með beinum eða óbeinum hætti, til hryðjuverka, bælingar eða í hernaðarlegum tilgangi, svo og eftirlit með þjónustu og fjárfestingum þeim tengdum.

Nefndin gerði breytingartillögu við frumvarpið þannig að markmið þess komi fram í 1. gr. Ástæða þótti til að ítreka þetta í lögunum þar sem skilja mátti af nokkrum umsögnum að með frumvarpinu gætu verið auðvelduð viðskipti af þessu tagi. Hér er þó þvert á móti verið að uppfæra eldri lög og herða allt eftirlit frá því sem fyrir var. Alþjóðleg samvinna um útflutningseftirlit hefur aukist verulega á undanförnum árum og nauðsynlegt er að uppfæra núgildandi löggjöf frá 1988 til að geta uppfyllt fyrirmæli öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og aðrar alþjóðlegar skuldbindingar á þessu sviði.

Enn fremur er í frumvarpinu kveðið á um reglur um örugga vörslu og geymslu gagna um hluti, þjónustu og fjárfestingar sem hafa eða geta haft hernaðarlega þýðingu, svo og viðurlög og stjórnsýsluúrræði við brotum á ákvæðum þess. Eftirlitið er haft vegna alþjóðlegra skuldbindinga sem miða að því að hefta sölu hefðbundinna vopna, gjöreyðingarvopna og hættulegra hluta. Nauðsynlegt er að takmarka dreifingu þeirra til ákveðinna staða, hópa eða einstaklinga til þess að koma í veg fyrir að þau séu notuð til hryðjuverka eð annarrar ólögmætrar starfsemi.

Margir þeirra hluta sem falla undir eftirlit það sem frumvarpið kveður á um hafa tvíþætt notagildi og geta jafnt nýst með lögmætum og friðsamlegum hætti sem og í hernaðarlegum tilgangi. Því telur nefndin rétt að leggja til að breyta heiti frumvarpsins í „Eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu“ og leggur fram breytingartillögu þar að lútandi.

Á grundvelli EES-samningsins eru lög og reglugerðir sem hefta milliríkjaviðskipti, eins og þetta frumvarp sem er byggt á grundvelli tilskipunar 98/34/EB. Reglugerðir af þessu tagi fara í svokallað tæknilegt tilkynningarferli til framkvæmdastjórnar ESB. Ábendingar bárust um hugtakaskilgreiningar á mismunandi leyfum í 3. gr. frumvarpsins og ákvað nefndin að fara að þeim ábendingum og gerir því breytingartillögur þar að lútandi.

Nefndin tók 4. gr. frumvarpsins til sérstakrar skoðunar en 4. mgr. 4. gr. kveður á um að ráðherra sé heimilt að kveða á um að leyfi þurfi fyrir innflutningi og viðkomu hluta hérlendis sem geta nýst í heild eða að hluta í tengslum við þróun, framleiðslu, meðhöndlun, rekstur, viðhald, geymslu, greiningu, auðkenningu eða útbreiðslu efna-, sýkla- eða kjarnavopna eða annars kjarnasprengjubúnaðar eða þróun, framleiðslu, viðhald eða geymslu á flugskeytum sem geta borið slík vopn. Nefndin leggur áherslu á að með 4. gr. er ekki verið að opna á heimildir til þess að veita leyfi til innflutnings eða útflutnings á vopnum af þessu tagi. Þvert á móti er tilgangur 3. og 4. mgr. 4. gr. fyrst og fremst sá að ráðherra geti hamlað inn- og útflutningi hluta sem eru andstæðir markmiðum frumvarpsins og eru ekki á listum yfir leyfisskyldar vörur sem birta skal í B-deild Stjórnartíðinda. Slíkir listar geta aldrei verið tæmandi. Því er nauðsynlegt að ráðherra hafi heimild til að takmarka inn- og útflutning á hlutum sem ekki eru á listunum en geta verið andstæðir markmiðum frumvarpsins. Til þess að gera 4. gr. skýrari leggur nefndin til breytingar sem kveða m.a. á um að heimildir ráðherra til að veita leyfi til innflutnings hluta sem geta haft hernaðarlegt gildi séu háðar því að innflutningurinn brjóti ekki í bága við alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að.

Að auki leggur nefndin til nokkrar minni háttar orðalagsbreytingar á frumvarpinu.

Nefndin var einhuga í áliti sínu og leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum.