Dómstólar

Þriðjudaginn 18. maí 2010, kl. 22:56:26 (0)


138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

dómstólar.

390. mál
[22:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er eitt atriði í ræðu hv. þm. Þórs Saaris sem ég vil taka sérstaklega undir — fyrst farin er sú leið, eins og gert er með frumvarpinu, að þingið komi undir tilteknum kringumstæðum að niðurstöðu um skipan í dómaraembætti hefði það verið betri trygging gegn pólitískri samstöðu um niðurstöðuna að gera kröfu um 2/3 en um einfaldan meiri hluta. Ég er sammála því mati hv. þm. Þórs Saaris að þegar sami pólitíski meiri hluti á Alþingi, sami pólitíski meiri hluti og hefur valið dómsmálaráðherrann til setu, getur með einföldum meiri hluta staðfest ákvörðun dómsmálaráðherra þá er breytingin frá því sem nú er meira í orði en á borði.

Við 1. umr. lýsti ég þeirri skoðun minni að ég teldi að með því að fara í málið með þeim hætti sem gert er í frumvarpinu væri verið að byrja, ef svo má segja, á öfugum enda. Ég vísaði til þess að í þeim umræðum sem átt hafa sér stað um breytingar á stjórnarskrá hefur verið víðtæk samstaða um það að meðal þeirra kafla sem helst þyrfti að endurskoða í stjórnarskrá Íslands væri dómstólakaflinn. Gera þyrfti ákvæði um dómstólana ítarlegri og m.a. fjalla um þær reglur sem ættu að gilda um skipan í dómaraembætti út frá sjónarmiðum um að tryggja þrískiptingu ríkisvaldsins og fleira þess háttar. Enn sem komið er hefur ekki náðst full samstaða um það hvernig standa bæri að slíkum breytingum en ekki hefur verið deilt um það sérstaklega að það væri rétta leiðin til þess að nálgast breytingar á skipan dómsvaldsins í landinu að byrja á breytingum á stjórnarskrá og útfæra það síðan í almennum lögum. Hér er með einhverjum hætti farið allt öðruvísi í málið, það er byrjað á öfugum enda ef svo má segja, farið er út í breytingar á hinum almennu lögum og einhvern tímann verður kannski farið í að breyta dómsmálakafla stjórnarskrárinnar. Þetta er frávik frá þeirri leið sem ég taldi, áður en þetta mál kom hér inn í þingið, að flestir ætluðu að fara og þess vegna kom það mér verulega á óvart að þetta skyldi vera niðurstaðan.

Hægt er að fjalla um einstaka þætti frumvarpsins á tæknilegum nótum en það liggur ljóst fyrir að það er meiri hluti fyrir frumvarpinu, það hefur komið í ljós í nefndarstarfi og í umræðum. Við, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd, höfum ekki lagst gegn því að sá meirihlutavilji kæmi fram. Hins vegar munum við ekki styðja þetta mál en vísum til þess að dómstólakaflinn hljóti að vera meðal þeirra kafla sem koma hvað helst til álita að breyta við endurskoðun stjórnarskrárinnar sem ég held að flestir, a.m.k. í orði kveðnu, séu sammála um að þurfi að fara fram sem allra fyrst.