Fjármálafyrirtæki

Mánudaginn 31. maí 2010, kl. 13:32:28 (0)


138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[13:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki. Er vissulega mjög þarft að þetta komi hér fram og mikilvægt að bregðast við því þó að manni finnist stundum ganga hægt í þessu bankahruni og því sem við höfum lært um fjármálamarkaðinn og hvernig haldið er á hlutunum eftir á og í uppbyggingarferlinu.

Í frumvarpinu er tekið á nokkrum meginatriðum. Það er farið að mestu leyti eftir skýrslu Kaarlos Jännäris sem er fyrrverandi forstjóri finnska fjármálaeftirlitsins og vann hér tillögur til úrbóta fyrir íslensk stjórnvöld.

Í innganginum og í nefndarálitum kemur fram að það er tekið á 3.–5. tölulið tillagnanna í skýrslu Jännäris. Að sjálfsögðu er ástæða til að fagna því, en hins vegar veltum við því fyrir okkur eins og fram hefur komið í þessari umræðu hvort gengið sé nógu langt í þeim breytingum sem verið er að gera hér, hvort hugsanlega hefði verið betra að gefa þessu lengri tíma og taka þá inn fleiri liði eða hvort með þessu frumvarpi sé verið að segja að við munum fljótlega aftur taka það upp og gera enn frekari breytingar. Flestir sem hafa talað í þessari umræðu telja að varla sé nógu langt gengið.

Eins hefur sú spurning komið upp í umræðunni hvort viðskipta- og fjárfestingarbanka eigi að reka saman eða hvort þeir eigi að vera algerlega aðskildar stofnanir eða aðskildar með einhverjum ákveðnum hætti. Persónulega tel ég að það hljóti að vera mikilvægt að reyna að skilja þarna að eins mikið og hægt er í ljósi reynslunnar. Í sjálfu sér á eftir að fara betur yfir þetta. Á eina lausn hefur verið bent í þessu, að efla Fjármálaeftirlitið. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Hvort sem þessar stofnanir verða reknar áfram saman sem fjárfestingar- og viðskiptabankar eða ekki þarf vitanlega að efla Fjármálaeftirlitið.

Ein spurning hefur brunnið á mönnum, sú hverjir eiga bankana. Fyrir nokkru sendi ég skriflega fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra um nákvæmlega þetta og spurði einfaldlega spurningarinnar: Hverjir eiga bankana? Svarið var vitanlega í takt við það sem hefur komið hér fram, ekkert svar af því að í rauninni veit enginn hver á bankana. Það er mjög sérstakt, frú forseti, að heyra síðan í fréttum að kröfuhafar, ég man ekki hvað þeir eru margir, 3000 eða þaðan af meira, hafi hins vegar lista yfir það hverjir eiga kröfur í þessi bú. Ég kann ekki að segja með framkvæmdarvaldið, það getur verið að það hafi þessar upplýsingar, en í það minnsta hefur Alþingi ekki aðgang að þeim. Það er mjög sérstakt ef Alþingi þarf hreinlega að kaupa sér kröfu til að fá upplýsingar um hverjir eru kröfuhafar í þessi þrotabú. Það eru væntanlega þeir sem eiga bankann eða munu eignast bankann í einhverjum hlutföllum, hugsanlega fækkar kröfunum eins og fram kom hér þannig að einhverjir stærri verði eftir.

Engu að síður er mjög mikilvægt að þingheimur fái þessar upplýsingar. Ef við þurfum að kaupa kröfur til þess að fá þær og viljum ekki ganga svo langt til að fá þessar upplýsingar er spurning hvort ríkið, eða Alþingi, geti hjúfrað sig upp að einhverjum góðum kröfuhafa sem gæti hreinlega látið þingmenn bara hafa þetta. Ég velti því upp því að það er vitanlega fáránleg staða, frú forseti, að þingnefndir skuli ekki hafa aðgang að þessum upplýsingum meðan kröfuhafarnir hafa þær og geta boðið hver öðrum að kaupa kröfurnar.

Síðan er enn eitt mál sem mig langar aðeins að nefna hérna, það varðar 35. gr. er snýr að hæfni og færni og kröfum til þeirra sem eiga að sitja í stjórnum. Ég er algjörlega á móti því að krafa sé gerð um háskólapróf, ekki svo að skilja að ég sé að gera lítið úr menntun, alls ekki, en það voru einmitt þessir kumpánar sem höfðu þessi fínu skírteini sem settu hér allt á hvolf. Ég hugsa að það hefði jafnvel verið betra ef fleiri hefðu spurt bjánaspurninganna í þessum stjórnum, það hefði kannski farið eitthvað öðruvísi ef menn hefðu haft vilja og getu til þess.

Þar með er ég ekki að segja að ekki eigi að gera neinar kröfur. Það á að sjálfsögðu að gera kröfur, en ég held að það sé mjög einfalt að einskorða þær við þetta. Þó að hér sé undanþáguákvæði er það nú eins og það er, undanþáguákvæði, og einhver á að ákveða hvort því sé beitt. Ég held að það sé líka mikilvægt að gera kröfu hreinlega um heilbrigða skynsemi sem ég held að hafi ekki verið gerð áður fyrr.

Eitt vil ég nefna í viðbót. Fyrst vil ég segja að ég tek undir breytingartillögu frá þingmönnum Sjálfstæðisflokks að það sé settur einhver tímafrestur til að selja fyrirtæki. Ég held að það sé mjög mikilvægt að setja hann til þess að það sé eitthvert aðhald með fjármálastofnunum. Ég treysti mér ekki til að segja hvort það eigi að vera sex mánuðir, 12 mánuðir eða hvað. Ég held hins vegar að það þurfi að vera einhvers konar endir á þessu því að hættan er — og ég vil meina að það sé hætta — að fjármálafyrirtækin sjái sér hag í að reka þessi fyrirtæki árum saman, áratugum saman hugsanlega, a.m.k. árum saman og vera hreinlega í samkeppni við aðra aðila á markaði. Ég sé það kannski í hinni verstu mögulegu mynd þannig að það verði fjármálastofnanir, segjum þrjú fjármálafyrirtæki, sem eigi hér og reki meira og minna allan byggingageirann, svo maður taki dæmi. Það er nokkuð sem ég held að sé ekki hollt fyrir okkur. Ég tek undir að þarna þurfi að setja einhvers konar bremsu. (Gripið fram í: Það er gaman í bisness.) Það er gaman í bisness, segir hv. þingmaður. Við sáum það hér á árum áður þegar menn fóru um hirslur bankanna, gengu lausir, að það var voða gaman í bisness.

Það er annað sem ég held að við þurfum að hafa í huga þegar við ræðum þetta og það er hvernig og hvort við erum með sambærilegt kerfi og sambærilegar lausnir og í nágrannalöndum og eru t.d. í Evrópusambandinu. Við höfum séð að innan Evrópusambandsins logar nú allt stafna á milli, evran er að hruni komin, efnahagsveldið mikla sem átti að vera, evruríkin og það samstarf er einnig að hruni komið. Við hljótum að spyrja okkur hvort ekki sé þörf á því að taka þessa umræðu samhliða því brölti að sækja um aðild að þessu hrunsbandalagi sem Evrópusambandið er. Við hljótum að þurfa að skoða þetta allt í samhengi.

Fyrir mér er einsýnt að við hljótum að huga að því vandlega núna að draga aðildarumsókn okkar til baka í ljósi þess að fjármálakerfið er hrunið í Evrópu. Nýjustu fréttir eru þær að Spánn sé kominn að fótum fram sem mun hafa gríðarleg áhrif um allt. Við eigum þar af leiðandi ekki að horfa í þessa átt til framtíðar, heldur einbeita okkur að því að hugsa vel um það sem við erum að gera hér heima, hugsa vel um okkar gjaldmiðil, hætta að tala hann niður eins og stjórnarliðar gera gjarnan og horfa til framtíðar. Það kann að vera að síðar meir þurfi að skoða þau mál, en á næstu árum og áratugum er ekki þörf á því að mínu viti.

Síðan er hér mál sem ég spurði hæstv. fjármálaráðherra út í fyrir nokkru. Í ljósi þess að í fjármálahruninu mikla kom í ljós að ekki var til nein viðbragðsáætlun við slíku, hún var a.m.k. ekki tengd eða hvernig á að orða það. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra hvort búið væri að gera slíka viðbragðsáætlun. Svarið var í rauninni að enn þann dag í dag væri ekki til nein viðbragðsáætlun. Það er áhyggjuefni og nauðsynlegt fyrir ráðherra og þær nefndir er fjalla m.a. um fjármálafyrirtæki, efnahags- og skattanefnd og viðskiptanefnd, að huga að því hvort það sé hreinlega nefndanna að grípa þarna inn í og láta útbúa viðbragðsáætlun við fjármálahruni ef til slíks kemur.

Því miður get ég ekki sagt til um hvort áhrifa gæti gætt hér ef annað hrun yrði, t.d. í Evrópu. Svo virðist sem evran og Evrópusambandslöndin séu komin að fótum fram með sinn gjaldmiðil. Hvort það hefur áhrif hér heima er ómögulegt að segja. Ef svo er og hér er ekki til nein viðbragðsáætlun er náttúrlega mjög sérstakt ef við ætlum aftur að láta taka okkur í bólinu með það.

Frú forseti. Það er að mörgu að hyggja. Frumvarpið sem slíkt er að sjálfsögðu til bóta. Hér er verið að skerpa ákveðnar reglur og ákveðna hluti, auka eftirlit og slíkt. Eins og ég sagði í upphafi máls míns má gera ráð fyrir að frumvarp þetta, eins og mörg önnur frumvörp stjórnarinnar sem hér eru lögð fram, þurfi a.m.k. 1–2 umferðir í þinginu til að þau verði fullsköpuð þó að þau séu nú lögð fram. Þar af leiðandi hefur maður ákveðna fyrirvara á þessu frumvarpi, þ.e. að enn séu hlutir í þessum lögum sem verið er að breyta sem þurfi að bæta enn frekar.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni en ég held, sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem við eigum hér um fjármálamarkaðinn og fjármálafyrirtæki, ef það er rétt að ekki sé til nein viðbragðsáætlun við öðru fjármálahruni að ástæða sé til þess að gera hæstv. fjármálaráðherra viðvart eða að nefndirnar taki málið upp á sína arma.