Fjármálafyrirtæki

Mánudaginn 31. maí 2010, kl. 14:35:24 (0)


138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[14:35]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir mörg af þeim sjónarmiðum sem komu fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal sem hefur í þessari umræðu og raunar löngum fyrr lagt mikla áherslu á mikilvægi þess að gagnsæi verði aukið í sambandi við hlutafjáreign með það að markmiði að auka traust á hlutabréfaforminu eða hlutafélagaforminu. Ég held að hugmyndirnar sem hann reifaði séu vel þess virði að vera skoðaðar sérstaklega í tengslum við þær breytingar sem verið er að gera á lögum um fjármálamarkaðinn enda er ljóst að rekstur fjármálafyrirtækja er sérstaklega viðkvæmur í samfélaginu, ekki síst við þær aðstæður sem við búum við þar sem ljóst er að stór hluti fyrirtækja í landinu er afar háður fjármálafyrirtækjunum með ýmsum hætti vegna skuldastöðu og ekki síst í ljósi þess að fjármálafyrirtækin hafa áhrif, bæði með beinni eignaraðild í fyrirtækjum sem þau taka yfir en eins á umhverfið sem fyrirtækin starfa í. Þessi hugmynd eða tillaga sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur reifað hérna á mjög vel heima í þessari umræðu og mikilvægt að nefndin gefi sér tíma til að fjalla um hana í því samhengi.

Við höldum nú áfram umræðunni eftir stutt þinghlé vegna sveitarstjórnarkosninganna og má segja að eftir því sem liðið hefur á umræðuna hefur mér þótt gæta meiri samhljóms um ýmis grundvallaratriði sem reifuð hafa verið. Miðað við ýmis orð, bæði hv. formanns viðskiptanefndar og varaformanns sem hafa tekið þátt í umræðunni, sýnist mér ástæða til að ætla að möguleikar séu á að ná meiri samhljóm um ýmsar frekari breytingar en þegar hafa verið gerðar tillögur um. Ég held að það sé jákvætt og að það skili okkur töluvert áleiðis í umræðunni.

Atriðið sem ég vil helst staldra við þegar hér er komið sögu er spurningin um hvort og þá hvaða tímafresti eigi að setja í sambandi við þann tíma sem fjármálafyrirtæki hafa til að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja sem þau taka yfir. Meiri hluti nefndarinnar, eins og kunnugt er, skildi við málið í því formi að vandkvæði væru fólgin í að lögfesta ákveðin tímamörk í þessu sambandi. Það er vissulega rétt. Aðstæðurnar eru mismunandi en hins vegar hef ég nokkrar áhyggjur af þessu vegna þess að tímafrestirnir sem verið er að ræða um eru langir og geta gefið fyrirtækjum sem bankar og aðrar fjármálastofnanir yfirtaka tækifæri til þess að valda töluverðri truflun á þeim mörkuðum sem þau starfa á. Hér hafa verið rakin ýmis dæmi sem líta einmitt þannig út að fyrirtæki sem eru í þessu ferli á vegum banka séu í raun og veru að þenja sig út með skaðlegum afleiðingum fyrir samkeppni á viðkomandi sviðum.

Þarna vegast tvenns konar sjónarmið á. Annars vegar er það sjónarmiðið um að fjármálastofnun þurfi að hámarka hugsanlegt endursöluverð fyrirtækja sem hún yfirtekur og hyggst selja aftur og hins vegar er það samkeppnissjónarmiðið sem má segja að lúti að því hvernig atvinnulífið í heild getur brugðist við erfiðum aðstæðum nú um stundir. Það er mjög alvarlegt ef viðleitni til þess að hámarka endursöluverð þeirra eigna sem bankarnir taka yfir verður til þess að valda jafnvel enn frekari skaða á starfsemi þeirra fyrirtækja sem ganga þó enn án þess að hafa lent í einhvers konar gjörgæslu eða yfirtöku þeirra fjármálastofnana sem þeir eiga viðskipti við.

Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að rétt sé að setja inn ákvæði í lögin sem kveði á um tiltekinn hámarkstíma í þessu sambandi. Menn hafa rætt um 12 mánuði. Ég held að nauðsynlegt sé að nálgast slíkt viðmið vegna þess að ef eingöngu er um að ræða matskenndar ákvarðanir Fjármálaeftirlits í þessum efnum þá er hætta á að Fjármálaeftirlitið skirrist við að fylgja því eftir af festu með þrýstingi, sem beita þarf til að fjármálastofnanir ljúki fjárhagslegri endurskipulagningu og sölu eigna af þessu tagi, vegna þess að lagastoðin sem slíkar ákvarðanir styðjast við er kannski ekki nægjanlega traust.

Á liðnum árum hafa umræður af þessu tagi farið fram í sambandi við yfirtöku banka og fjármálafyrirtækja á fyrirtækjum í óskyldum rekstri þó að það hafi auðvitað verið í miklu minna mæli en við horfum upp á nú en það er ekkert nýtt fyrirbrigði að fjármálafyrirtæki taki yfir og reki fyrirtæki í óskyldum rekstri. Þetta hefur áður verið fyrir hendi. Ég hygg að Fjármálaeftirlitið teldi sig ekki hafa lagastoð til þess að fylgja nægilega fast eftir ákvæðum um að fjármálafyrirtækjum bæri að losa sig út úr óskyldum rekstri nægilega hratt. Ég held að með einhverjum hætti, hvort sem miðað er við 12 mánaða tíma eða eitthvað annað tímamark, þurfi að setja inn skýrt ákvæði um þetta þannig að það sé alla vega einhver lágmarks- eða hámarkstími, lágmarkstrygging, fyrir því að fjármálafyrirtæki losi sig út úr þessu á tilgreindum tíma. Auðvitað er í flestum tilvikum æskilegast að það gerist fyrr því að þegar fjármálafyrirtæki tekur yfir rekstur óskyldan eigin rekstri á að vera um undantekningu og neyðarúrræði að ræða. Aðrar leiðir eiga að hafa verið reyndar áður. Þegar fjármálafyrirtæki er komið í annan rekstur þá leiðir það af eðli fjármálastarfsemi að æskilegast er að losa um þær eignir sem allra fyrst og einbeita sér að því starfi sem fjármálafyrirtækið á að sinna, sem er ekki rekstur blómabúða, steypustöðva, fjölmiðlafyrirtækja eða annarra fyrirtækja í gersamlega óskyldum rekstri.