Fjármálafyrirtæki

Mánudaginn 31. maí 2010, kl. 14:57:48 (0)


138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[14:57]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að ég hafi gert ágætlega grein fyrir hvaða skoðanir ég stend fyrir þegar kemur að samkeppnismálum. Bendi ég þá bara á stutta grein sem ég skrifaði og birtist í Morgunblaðinu sl. föstudag og þingmaðurinn getur kynnt sér, ég hygg að meiri hluti þingmanna Sjálfstæðisflokksins hafi gert það.

Það sem ég er hins vegar að segja hér er mjög einfalt: Það er ekki með neinum hætti tekið á því með hvaða hætti fjármálafyrirtæki geti átt fyrirtæki og fyrirtækjasamsteypur í þessu frumvarpi um fjármálafyrirtæki og hvernig koma á í veg fyrir að fyrirtækjasamsteypur sem reknar eru t.d. í skjóli ríkisbanka brjóti ekki hér niður allt það frumkvæði og framtak sem litlir og meðalstórir atvinnurekendur hafa sýnt hér og hafa barist í bökkum fyrir, en nú á að drepa það niður. Það er þetta sem ég gagnrýni og það verður að koma til umræðu í hv. viðskiptanefnd með hvaða hætti á að taka á þessum málum þannig að trúnaður og traust nái að festa hér aftur rætur vegna þess að ef það næst ekki skiptir engu máli hvað við tölum um á þessari hv. samkomu.

Varðandi sparisjóðina er það sem ég gagnrýni fyrst og fremst það að hér er verið að ríkisvæða sparisjóðina. Ég geri mér alveg grein fyrir af hverju. Það þurfti hugsanlega að grípa til aðgerða sem menn hefðu undir eðlilegum kringumstæðum aldrei samþykkt. En það sem ég segi er: Það vantar framtíðarsýnina þegar kemur að sparisjóðunum. (Forseti hringir.) Það vantar að marka leiðina. Hvert ætlum við? Hvert ætlar hæstv. ríkisstjórn þegar kemur að eignarhaldi sparisjóðanna?