Fjármálafyrirtæki

Mánudaginn 31. maí 2010, kl. 15:25:41 (0)


138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:25]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef nú leitað leiða í þessari umræðu við að vera málefnalegur og taka þátt vegna þess að ég held að það sé í anda þeirra vinnubragða sem við verðum smátt og smátt að innleiða á þessu þingi, að forðast fyrirsagnastíl og nálgast heldur umræðuna málefnalega og takast á með rökum um hvað okkur finnst og hvað okkur finnst ekki.

Í andsvari mínu hér fyrr við hv. þm. Óla Björn Kárason lagði ég áherslu á það að við erum hér með þá breytingartillögu að opna möguleika fyrir það að sparisjóðir séu endurreistir með það í huga að gera minni kröfur um stofnfé en til annarra fjármálafyrirtækja.

Það hefur komið fram á fundum viðskiptanefndar að flóknar samningaviðræður um endurreisn ákveðinna sparisjóða standi enn. Þá erum við að víkja hér að stærri sparisjóðum vegna þess að þar koma að kröfuhafar, erlendir bankar, og svo þarf að leita leiða til þess að ríkið geti komið fram með eiginfjárframlag og að þar sé ekki gengið á rétt skattborgara í þessu landi sem og að stilla þetta saman við hagsmuni stofnfjáreigenda. Vissulega er það í allra hag að stofnfjáreigendur komi áfram að rekstri sparisjóðanna. Þetta eru flóknar samningaviðræður og hafa greinilega tekið miklu meiri tíma en menn ætluðu í fyrrasumar þegar það frumvarp sem hér hefur verið nefnt var til umfjöllunar á vettvangi þingsins.

Ég er sammála hv. þingmönnum um það að skoða þurfi sparisjóðakerfið allt saman og ígrunda vel með hvaða hætti við viljum taka á málefnum þeirra. Eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur bent á í umræðunni snýst þetta ekki síður um það hvort þeir sem áður hafa sett fjármuni inn í þessi fyrirtæki treysti sér til þess aftur. Það er málefni sem við þurfum að taka á. Við getum ekki afgreitt það sem hluta af þeim björgunaraðgerðum sem við stöndum í.