Tæknifrjóvgun

Mánudaginn 31. maí 2010, kl. 16:41:49 (0)


138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

tæknifrjóvgun.

495. mál
[16:41]
Horfa

Frsm. heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti vegna frumvarps til laga um breytingar á lögum nr. 55/1996 um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna.

Heilbrigðisnefnd stendur öll að nefndarálitinu og, hæstv. forseti, umsagnirnar sem komu varðandi þetta mál voru allar jákvæðar. Eftir sem áður fékk nefndin umsögn að loknum umsagnartíma þess efnis að ég tel rétt að óska eftir því hér í upphafi að málið fari aftur til nefndar milli 2. og 3. umr.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsagnir frá umboðsmanni barna, Tilveru – samtökum um ófrjósemi, landlæknisembættinu og Kvenfélagasambandi Íslands auk umsagnar frá Læknafélagi Íslands sem barst eftir að umsagnarfrestur rann út.

Með þessu frumvarpi er lagt til að einhleypum konum sem búa við skerta frjósemi verði heimilt að nota bæði gjafaegg og gjafasæði við glasafrjóvgun. Sama gildi um gagnkynhneigð og samkynhneigð pör, þar sem frjósemi beggja maka er skert. Samkvæmt lögum nr. 55/1996 er ekki heimilt að nota gjafaegg við glasafrjóvgun einhleyprar konu, konu í sambúð með annarri konu eða konu sem ekki getur nota sæði frá eiginmanni eða sambýlismanni. Frumvarpið tekur einnig til geymslu fósturvísa, breytingar á 9. gr. laganna um geymslu fósturvísa án tillits til þess hvort notaðar hafa verið kynfrumur parsins/konunnar eða gjafakynfrumur.

Verði frumvarpið að lögum er ljóst að kona sem eignast barn sem getið er með tæknifrjóvgun telst móðir þess sbr. 5. gr. barnalaga nr. 96/2003. Enn fremur telst maður sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun, faðir barns sem þannig er getið. Sama á við um mann og konu sem skráð hafa sambúð sína í þjóðskrá sbr. 6. gr. barnalaga.

Með lögum nr. 65/2006, um breytingar á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra, kom inn sú grundvallarbreyting að konu í staðfestri samvist eða í óvígðri sambúð með annarri konu er heimilt að gangast undir tæknifrjóvgun. Með öðrum breytingarlögum, nr. 54/2008, um breytingar á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, var aftur gerð sú breyting að einhleypum konum verði heimilt með sömu skilyrðum og pörum að gangast undir tæknifrjóvgunarmeðferð hér á landi. Ljóst er að sjónarmið sem lúta að rétti einstaklinga til að eignast barn eru ríkjandi við lagasetningu.

Nefndin telur að með frumvarpi þessu sé stigið þarft skref til að koma til móts við einstaklinga, hjón og pör sem lifa við skerta frjósemi og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Í umsögn frá umboðsmanni barna kom fram að virða þarf rétt barna til að þekkja uppruna sinn. Í athugasemdum við frumvarpið sem varð að lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun, er áréttuð nauðsyn þess að tryggja nafnleynd milli gefanda kynfrumna og þiggjanda. Sú röksemd er undirstrikuð að hjálpa beri barnlausum pörum og hjónum að eignast börn. Það kemur einnig fram í umsögn frá Læknafélaginu að réttur barna til að þekkja uppruna sinn sé mikilvægur. Í 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins er kveðið á um rétt barns til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra eftir því sem unnt er. Enn fremur er í 1. gr. barnalaga, nr. 76/2003, kveðið á um rétt barns til að þekkja báða foreldra sína. Í greininni er þó að finna frávik þegar rætt er um barn einhleyprar konu sem getið er með tæknifrjóvgun en það barn verður ekki feðrað.

Í 2. mgr. 6. gr. barnalaga er jafnframt kveðið á um að kona sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á samvistar- eða sambúðarmaka sínum samkvæmt lögum um tæknifrjóvgun, er kjörmóðir barns sem þannig er getið. Í frumvarpinu sem nú er til meðferðar er ekki tekið á þeim álitamálum sem upp koma er varða réttarstöðu barns. Því tel ég rétt, hæstv. forseti, að heilbrigðisnefnd fari yfir umsögn og álit frá siðfræðiráði Læknafélags Íslands áður en málið er endanlega afgreitt. Að hún taki afstöðu til þess og ábendinga sem eru í umsögn Læknafélagsins, þ.e. að ekki hafi farið fram nokkur skoðun á áhrifum laganna frá 1996 en þá var í fyrsta sinn lagalega rétt að barn fæddist í heiminn sem hefði ekki nokkurn rétt eða möguleika á að fá að vita um líffræðilegt faðerni sitt en það var fram að því réttur sem var (og er) áskilinn í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Barnið átti þó engu að síður föður þótt hann væri oftast nær ekki líffræðilega skyldur barninu.

Hæstv. forseti. Ég óskaði ekki eftir leyfi til þess að lesa beint upp úr umsögn Læknafélags Íslands en geri það hér með:

„Nú þegar liðin eru 14 ár frá samþykkt laganna um tæknifrjóvgun væri rétt að fram fari skoðun á því hvernig þessum börnum hefur farnast og að nú sé staldrað við á þessari göngu sem hófst árið 1996. Einnig má benda á að með þeirri breytingu sem nú er til umfjöllunar er ekki um neinn enda á þessari vegferð að ræða. Núna eru til skoðunar í heilbrigðisráðuneytinu hugmyndir um að lögum um staðgöngumæður en sú vinna hófst fyrir áeggjan aðila sem vilja auka enn frekar möguleika á barneignum. Hér er ekki verið að ganga út frá því að það verði að veruleika, aðeins að benda á að sífellt er leitað lengra í notkun tækninnar til að hafa áhrif á grundvallaratriði í mannlegri tilveru, tilverunni sjálfri.“

Hæstv. forseti. Ég tel rétt, eftir að umsögnin barst nefndinni, að þrátt fyrir að nefndin sé einhuga í því að bæta stöðu og rétt einhleypra kvenna sem búa við skerta frjósemi — og undir það rita allir nefndarmenn sem eru auk mín, formanns nefndarinnar, þau Margrét Pétursdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Skúli Helgason, Valgerður Bjarnadóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson.

Fjarverandi við afgreiðslu málsins voru hv. þingmenn Siv Friðleifsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir en þær eru sammála afgreiðslunni.

Þetta er mikil réttarbót fyrir einhleypar konur og þær sem búa við skerta frjósemi. Eftir sem áður tel ég rétt að vísa málinu aftur til nefndarinnar á milli 2. og 3. umr.