Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 01. júní 2010, kl. 15:02:08 (0)


138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:02]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Málið hefur verið unnið ítarlega á vettvangi viðskiptanefndar, það hefur legið hjá nefndinni í fjóra mánuði og t.d. farið tvisvar sinnum í umsagnarferli. Þetta er mjög þarft frumvarp, þar er tekið á fjölmörgum bráðnauðsynlegum atriðum sem m.a. hafa komið fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Þurfum við að taka frekari skref til að styrkja fjármálamarkaðinn á Íslandi? Já. En eigum við að bíða með þetta frumvarp til að taka á fleiri atriðum? Nei. Við munum halda áfram að vinna þetta frumvarp á vettvangi nefndarinnar á milli 2. og 3. umr. og svo fleiri frumvörp sem eru í bígerð á vettvangi framkvæmdarvaldsins sem taka á öðrum atriðum sem taka þarf á í fjármálaumhverfi okkar Íslendinga. En það er ljóst að ekki er hyggilegt að fresta afgreiðslu þessa máls því að hér eru á ferð fjölmörg bráðnauðsynleg atriði sem fjármálamarkaðurinn þarf á að halda.