Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 01. júní 2010, kl. 15:38:49 (0)


138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:38]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir.

Mig langar að nefna tvennt í þessu sambandi. Það er kostulegt að menn sem taka undir þá áskorun að taka upp ný vinnubrögð skuli koma hér í atkvæðaskýringar um tillögu sem menn eru sammála um að draga til baka og ræða frekar í nefndinni. Það var fyrra atriðið.

Hitt atriðið er það að við 2. umr. þessa máls ræddum við ítarlega um þetta kröfulýsingaferli, þá stöðu sem er á kröfum og að ekki sé hægt að upplýsa um það hverjir eiga bankana fyrr en búið er að taka afstöðu til þeirra krafna sem í þrotabúinu eru. Það er algjörlega á kristaltæru og margítrekað hér við 2. umr. Samt sem áður koma menn hér upp í einhverjum lýðskrumspælingum og reyna að skora (Gripið fram í.) einhverjar keilur með þessum hætti. Mér þykir það leiðinlegt, vegna þess að við ræddum þetta mjög ítarlega við 2. umr. málsins. (Gripið fram í.) Það er ekki hægt að upplýsa hverjir eiga bankana fyrr en vitað er hver staða krafnanna er. (Gripið fram í.) Það eru eignarhaldsfélög sem (Gripið fram í.) halda utan (Gripið fram í.) um rekstur bankanna í dag (Forseti hringir.) og engin tengsl eru á milli þessara eignarhaldsfélaga og krafnanna.

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa þingmönnum tækifæri til að ræða atkvæðagreiðsluna eða gera grein fyrir atkvæði sínu.)