Stjórnlagaþing

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 14:33:19 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[14:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þau eru mörg málin sem rædd eru á þinginu sem æskilegt væri að sem flestir þingmenn væru viðstaddir umræðu um og ráðherrar líka. En ég verð að svara spurningu hv. þm. Óla Björns Kárasonar neitandi. Mér fannst það ekki óþægilegt að forsætisráðherra væri ekki í salnum, ég geri ráð fyrir að hún lesi nefndarálitið. Það er svo að það er margt á dagskrá ríkisstjórnarinnar og án þess að ég sé beinlínis með dagskrá forsætisráðherra í höndunum geri ég ráð fyrir að hún sé upptekin við annað eða hún fylgist með þessari umræðu úr fjarlægð, eins og ég geri ráð fyrir að fjölmargir þingmenn stjórnarandstöðunnar geri líka. Það vantar nokkuð marga þeirra í salinn líka. Auðvitað væri æskilegt að sem flestir tækju þátt í umræðu um sjálfa stjórnarskrána en mest er um vert að mínu mati að alþingismenn munu koma að því að ræða um tillögur þær sem koma frá stjórnlagaþinginu. Vegna þess að ég deili þeirri skoðun með hv. þm. Birgi Ármannssyni og að mér heyrist Óla Birni Kárasyni að það eigi þjóðkjörnir fulltrúar á Alþingi líka að gera, enda er það svo að í ritgerð breska heimspekingsins Johns Lockes um ríkisvald segir hann klárum stöfum, svo maður vitni í nokkur hundruð ára gamlan texta, að löggjafarvaldið geti ekki framselt frá sér það vald. Það getur ekki gert það og það stendur ekki til.