Stjórnlagaþing

Þriðjudaginn 08. júní 2010, kl. 14:36:19 (0)


138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[14:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það verður efnt til kosninga til stjórnlagaþings næsta haust sem skiptir gríðarlega miklu máli. Ég mundi ekki ganga svo langt, mér finnst það nokkuð djúpt í árinni tekið hjá hv. þingmanni og mikill æsingsbragur á því þegar menn nota það orð um lýðræðislega kjörna samkomu eins og stefnt er að að þar sé á ferðinni rússnesk rúlletta. Mér finnst vera svolítill æsingsbragur á þeirri orðanotkun og ég mundi óska þess að við gætum talað um þetta mál í aðeins hófstilltari tón en þeim sem heyrðist frá hv. þingmanni. Af hverju erum við að gera þetta? Til hvers er stjórnlagaþingið? Því er lýst í greinargerð og í nefndarálitinu, en það er fyrst og fremst til að tryggja lýðræðislega aðkomu almennings að stjórnarskrárvinnu. Það er hún, eins og ég sagði í nefndarálitinu og framsöguræðu minni, sem er stjórnarskrárgjafinn.